- Advertisement -

Fyrirtækin fá ekki vinnuaflið áfram á útsöluverði

Á að taka mark á þessu liði? Með þessu háttalagi er beinlínis verið að biðja um hörð átök!

Björgvin Guðmundsson skrifar:

Atvinnurekendur hafa ekki boðið launafólki neina kauphækkun enn enda þótt 3 1/2 vika sé liðin frá því kjarasamningar runnu út. Ég tel ekki með þessi 1-2% sem SA hefur nefnt; það er svo lítið, að ekki tekur að nefna það. Atvinnurekendur eru í sömu sporunum í kjaraviðræðunum eins og snemma á síðasta ári en þá fóru þeir að predika, að svigrúm til launahækkana væri ekkert, ef til vill 1-2%!!

Þetta hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar étið upp eftir þeim! SA stendur nákvæmlega eins að þessari vinnudeilu eins og 2015 en þá sagði SA, að óðaverðbólga mundi skella á, ef kröfur verkafólks næðu fram að ganga.

Kröfurnar voru svipaðar 2015 og þær eru nú, þá fyrsta hækkun 14,5%, nú 14% þá svipuð heildarhækkun og nú á 3 árum, alveg eins og nú. Kauphækkunin náði fram að ganga 2015 og engin óðaverðbólga skall á. Sama verður nú. Kauphækkunin mun ganga fram og efnahagur landsins þolir hana vel. Aðalatriðið er einnig það, að lágmarkslaun verkafólks hafa verið svo lág, að vinnuafl verkafólks hefur verið á útsölu.

Sólveig Anna, formaður Eflingar, hefur lýst því yfir, að atvinnulífið muni ekki áfram fá vinnuaflið á útsöluverði. Ég tek undir það. Það er kominn tími til þess að verkafólk fái mannsæmandi laun fyrir vinnu sína, laun sem það geti lifað af. Það er enginn leið af lifa af þeirri hungurlús, sem verkafólk hefur í dag.

Yfirstéttin, forstjórar atvinnufyrirtækja,ráðherrar, þingmenn,dómarar o.fl. hafa rakað til sín peningum,fengið tugprósenta hækkanir en ætla síðan að skammta verkafólki „skít úr hnefa“. Laun þingmanna hækkuðu um 140% frá 1981 og laun ráðherra hækkuðu um 123% á sama tímabili. Hækkanir forstjóranna, þar á meðal forstjóra Samtaka atvinnulífsins eru einnig gífurlegar en síðan koma þessir aðilar og segja 1-2% hækkun verkafólks passlega!

Á að taka mark á þessu liði? Með þessu háttalagi er beinlínis verið að biðja um hörð átök!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: