Í dag, miðvikudag, klukkan 12 verður haldinn fyrirlestur um íslenska bóksögu í fyrirlestrarsal Þjóðarbókhlöðu. Fjallað verður um bókaeign Íslendinga á 19.öld.
Örn Hrafnkelsson, sviðsstjóri varðveislu og stafrænnar endurgerðar á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, heldur erindið sem ber titilinn: „Tilhlaup að rannsókn á bókaeign á Íslandi á 19. öld“ í fyrirlestraröðinni Íslensk bóksaga.
Í útdrætti Arnar segir: „Árið 1865 sendi Helgi G. Thordersen, biskup Íslands, bréf til allra prófasta þar sem óskað var eftir aðstoð þeirra við að afla upplýsinga um bókaeign landsmanna á bókum sem prentaðar voru fyrir 1816. Bréfið var sent út fyrir hvatningu Jóns Árnasonar bókavarðar og biskupsritara. Mörg svör bárust biskupi og eru þau nú varðveitt í handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Þessar upplýsingar geyma mikilvægar upplýsingar um bókaeign landsmanna á nítjándu öld og með hjálp tölvutækninnar er hægt að gefa greinargott yfirlit yfir hana sem kynnt verður á fyrirlestrinum.“