- Advertisement -

Fyrir Bjarna er Miðflokkurinn tiltölulega skaðlaus

Gunnar Smári skrifar:

Ég held að megin ástæðan fyrir minnkandi fylgi Miðflokksins og auknu fylgi Sjálfstæðisflokksins sé prófkjörsbarátta Brynjars Níelssonar í Reykjavík. Hann laðar til sín fólk, reyndar svo til eingöngu karla, sem liggja í sniðmengi flokkanna; karla sem sveiflast eftir því hvert reiði þeirra beinist. Sigmundur Davíð hefur að undanförnu gert út á sama menningarstríð og Brynjar, en ekki stillt sér upp sem valkosti fyrir reiðu karlanna á móti Sjálfstæðisflokknum, gætt sín að hallmæla xD ekki á nokkurn hátt.

Að prófkjörinu loknu mun Brynjar falla inn í hóp Sjálfstæðisfólks, sem mun reyna að birtast sem víðsýnt nútímafólk í kosningabaráttunni og þá mun aftur opnast tækifæri fyrir Sigmund að gera út á þessi mið; tala um hvernig femínistar og allskonar mannréttindafólk er að yfirtaka samfélagið, fólk sem vill stjórna hverju reiðu karlarnir hlægja að, hvað þeir hugsa, segja og borða. Líklega er hægt að færa um 3% kjósenda til með svona framsetningu, karlar sem eru hræddir og óöryggir í nútímanum og sem tjá óöryggi sitt í árásum á þau sem þeir skilgreina sem óvini.

Ég held að engu skipti hvar Brynjar lendir í prófkjörinu, ég myndi spá honum fyrsta sæti. En sú niðurstaða mun ekki breyta ásýnd Sjálfstæðisflokksins í kosningum. Bjarni Benediktsson metur það meiri skaða að missa fylgi yfir til Viðreisnar en Miðflokksins og mun ekki taka undir menningarstríðsyfirlýsingar Brynjars nema í algjöru lágmarki. Fyrir Bjarna er Miðflokkurinn tiltölulega skaðlaus, eitthvað sem víðast er til og sem hægrið getur lært að lifa með. Og þó Bjarni reikni frekar með að hægt sé að taka Viðreisn inn í núverandi ríkisstjórn sem fjórða hjól, þá er alltaf smá hætta á að Viðreisn fari í stjórn með miðflokkum, jafnvel vinstri flokkum. Sú hætta er ekki til staðar hjá Miðflokknum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: