- Advertisement -

Fýlukastinu lauk með 50 milljörðum

Skoðun Störukeppni milli stjórnenda sjávarútvegsfyrirtækja og ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttar var afgerandi á síðasta kjörtímabili. Útgerðin vann. Reyndar tókst þeim ekki að koma í veg fyrir veiðigjöldin, sem í sanngirni sagt, var svo sem ekki takmarkið, heldur þótti þeim þau of há, alltof há. En með þolinmæðinni, baráttunni og öllum þeim aðferðum sem var beitt hafa jú orðið breytingar, veiðigjöldin hafa breyst, útgerðin þarf ekki lengur að óttast að verða svipt réttindum sínum, nokkuð margir myndu segja forréttindum, meðan núverandi ríkisstjórn situr.

Ódæll krakki sem ekki fær sínu framgengt kann að grípa til þess að fara í fýlu eða þykjast vera í fýlu. Reyndar gildir þessi aðferð um fólk á öllum aldri. Gott og vel með það.

Lét undir höfuð leggjast

Meðan útgerðin í landinu barðist gegn þáverandi ríkisstjórn lét hún undir höfuð leggjast að endurnýja úrsérgenginn skipaflota. Íslenskum fiskiskipum var helst jafnað við bílaflota Kúbverja. Samt var mikið til af peningum, skuldir voru gerðar upp í gríð og erg. Allt annað gert en að fjárfesta, allavega ekki í því sem sást. Sett voru upp ný frystihús og annað sem er bakvið luktar dyr.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Nú þegar ekki þarf lengur að stappa niður fæti, ekki er ástæða til að vera í fýlu, eða þykjast vera í fýlu opnast allar flóðgáttir. Á skömmum tíma hefur verið fjárfest fyrir um fimmtíu milljarðar í allskyns skipum og bátum. Og meira er framundan. Svo sanngirnis sé gætt verður að geta þess að það kostar aukalega að nú gefur betur að gera út ísfiskstogara en frystitogara.

Hvað með Íslendinga?

Gott og vel. Af þeim fimmtíu milljörðum, sem áður voru nefndir, fer sáralitill hluti íslenskra fyrirtækja. Skipin eru keypt með öllu, hér er nánast ekkert unnið við þau, þau koma fullgerð. Helst er að Íslendingar komi að hönnun skipanna, eða hönnun skipshluta.

Þegar annað gerist, að engin skip eru smíðuð í áraraðir eða mörg skip á skömmum tíma, verður ótækt að viðhalda skipasmíði á Íslandi. Samt lifum við svona, ýmist í ökkla eða eyra, aftur og aftur.

Ein afleiðing þess er sú að þjóð sem skortir sáran gjaldeyri borgar nánast alla fimmtíu milljarðana til útlanda. Að hluta til vegna átaka milli útgerðar og stjórnvalda. Skipasmiðir, skipasmíðastöðvar, iðnaðarmenn, samfélög hér og þar um heiminn græða gnótt, fá ómældar tekjur frá Íslandi.

Við getum víst ekki lengur smíðað skip, við getum ekki byggt upp þekkingu og kunnáttu þegar ýmist ekkert er að gerast eða svo mikið að engin leið er að ráða við verkefnin.

Að lokum, löngu tímabært er að endurnýja íslenska flotann. Þó svo að aðeins lítill hluti fjárfestingana fari til íslenskra fyrirtækja, til íslensks samfélags.

Sigurjón Magnús Egilsson.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: