Fyllist andúð á grimmdinni sem býr til kerfið
Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:
Fréttablaðið í dag segir sögu af stéttaskiptingu og misskiptingu. Í frétt á bls. 4 segir af rannsókn Margrétar Einarsdóttur nýdoktors sem leiddi í ljós að stúlkur sem vinna með námi upplifa frekar vanlíðan en þær sem gera það ekki. Stúlkur foreldra sem eru ekki með aðra menntun en grunnskólamenntun vinna frekar með námi en dætur háskólamenntaðs fólks. Þær gera það til að afla tekna til að „fjármagna þátttöku sína í unglingamenningu samtímans“. Margrét segir að ljóst sé að vinna þurfi nánari greiningu á þeim kynbundna mun sem kemur líka fram í könnuninni, en stúlkurnar vinna frekar og vinnan bitnar harðar á þeim. Ég vona sannarlega að Margrét eða einhver önnur manneskja framkvæmi slíka rannsókn. Í fréttinni er einnig sagt frá því að rannsóknir síðustu misseri hafi sýnt fram á að andlegri heilsu ungmenna fari hrakandi.
Í Markaðnum, fylgiblaði Fréttablaðsins um „viðskipti og fjármál“ segir svo af því á bls. 2 að „ofgnótt eiginfjár geti dregið dilk á eftir sér“ fyrir íslensk fjármálafyrirtæki. Þessi ofgnótt eiginfjár er til komin vegna þess að Seðlabankinn hefur frá því í vor skipað bönkunum að standa ekki í arðgreiðslum á meðan sóttvarnaraðgerðir yfirvalda vegna Covid valda uppnámi í efnahagskerfinu. Svona mikið eigið fé sem ekki er hægt að nota í arðgreiðslur hefur „hamlandi áhrif“. Í þessu samhengi er áhugavert að velta því fyrir sér að barátta íslenskra fjármálafyrirtækja fyrir lækkun bankaskatts hefur borið mikil áhrif og var áframhaldandi lækkum t.d. flýtt um daginn og kölluð sérstök Covid aðgerð. Þessi lækkun bankaskatts hefur væntanlega gert það að verkum eigið féð hefur aukist enn meira. Enn einu sinni verður við vitni að bull-málflutningi íslensks auðvalds. Enn einu sinni afhjúpast vilji þeirra til að blekkja og afvegaleiða; það er ekki „eigið féð“ sem veldur vandræðum í bankatilverunni heldur þau leiðindi að mega ekki greiða arð.
(Í lok umfjöllunarinnar um böl bankanna kemur svo fram afhverju við venjulega fólkið ættum að vona af öllu hjarta að arðgreiðslurnar verði ekki leyfðar þrátt fyrir áróðurs-vælið og hver hin „hamlandi áhrif“ eru m.a.: „Snorri hjá Jakobsson Capital segir ekki vera bjartsýnn á að Seðlabanki Íslands leyfi miklar arðgreiðslur hjá bönkum á næstunni. Seðlabankinn kunni að telja varasamt að hleypa 150 milljörðum króna inn á markaðinn þegar sjá má merki um mikla spennu á fasteignamarkaði. „Þar sem helstu veð bankanna eru fasteignir og því mjög slæmt fyrir fjármálastöðugleika ef það verður bólumyndun á fasteignamarkaði.““)
Saga af stéttaskiptingu og misskiptingu. Kannski væri réttara að segja saga af brjálsemi og hörmungum hins síð-kapítalíska samfélags (sem er auðvitað sundurnagað af stéttaskiptingu og misskiptingu). Verkafólk og börn þess þurfa að berjast fyrir hverri krónu. Þegar verka og láglaunafólk berst fyrir betri kjörum rísa talsmenn auðstéttanna upp hver á fætur öðrum gargandi ásakanir um að skríllinn ætli að drepa Ísland með græðginni; í síðustu viku birti Markaðurinn viðtöl við hátt setta starfsmenn bankanna sem eru að springa af peningum um hversu lífsnauðsynlegt það væri fyrir Ísland að koma í veg fyrir að samningsbundnar hækkanir kæmu til fólksins á lægstu laununum í janúar. Kvennastéttir í umönnun, ófaglærðar konur sem gæta barna og aðstoða gamalt fólk, þurfa mánuðum saman að sitja undir stöðugum árásum um að vera vonda og geðveikar. Marg-milljón-króna menn, forstjórar og borgarstjórar og stjóra-stjórar eru friðlausir af brennandi löngum í að koma í veg fyrir að þær fái sérstaka leiðréttingu sinna ömurlegu kjara. Kröfugerðir stéttarfélaga eru dregnar sundur og saman í háði og fyrirlitningu, sérstakar auglýsingar birtar til að grafa undan baráttunni fyrir betra lífi vinnuaflsins. Fjöldaatvinnuleysi skellur á og rústar lífi verka og láglaunafólk í stórum stíl. Stöðugar fréttir eru fluttar af því að hjálparsamtök hafi aldrei séð annað eins; sívaxandi hópur fólks á ekki peninga fyrir mat og nauðsynjum. Fjölskyldur kvíða hátíð ljóss og friðar, barna-hátíðinni, fæðingarhátíð frelsarans (Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki); þar sem allsleysið hefur sest að er ekki auðvelt að finna tilhlökkun í hjarta; hvernig á að kaupa jóla-matinn og gjafirnar? Talsmenn eigenda atvinnutækjanna segja hátt og skýrt: Ekki má hækka bætur til vinnuaflsins sem enga vinnu getur fengið, nei, það má ekki hvetja þetta fólk til þess að verða latt og hyskið. Stjónmálafólk hlýðir þessu boðorði hinna grimmu og í stað þess að hækka atvinnuleysisbætur er bankaskattur lækkaður.
Ég afvegaleiðist, ég biðst afsökunar: Dóttir láglaunakonunnar sem stritar fyrir lágmarkslaunin veit að hún þarf sjálf að vinna sér inn peninginn til að geta tekið þátt í samfélagi jafnaldranna. Hún þekkir eflaust líka hvernig það er að vera eftirbátur þegar kemur að því að eiga og mega. Hún fer ekki til Tene á hverju sumri. Hún fer ekki í skíðaferð til Alpanna. Hún fær ekki 80.000 króna dúnúlpu á haustin. Hún er líka búin að læra að vera ekki að íþyngja mömmu sinni með endalausum beiðnum, það lærist fljótt. En þegar hún er nógu gömul til að mega selja vinnuaflið sitt á útsölumarkaði samræmdrar láglaunastefnu þá gerir hún það. Ásamt því að vera í námi. Kvíðinn bankar uppá, stúlkuhugurinn og stúlkuhjartað hafa ekki pláss fyrir allt álagið inní sér. Og kannski rennur sá dagur upp að ekkert annað er í boði en að hætta í skólanum. Það heitir „mikið brottfall“ og þá er hún orðin tölfræði og svo ekkert nema ódýrt kven-vinnuafl en af því fær íslenskur vinnumarkaður aldrei nóg.
Svona er staðan í dag á Íslandi. Skattalækkaðir bankarnir eru að springa á saumunum vegna ofgnótt fjár. Atvinnulaust fólk er að springa af hræðilegum áhyggjum. Og stúlkurnar okkar af stétt verkafólks reyna að verða „ofur-konur“ kapítalismans, reyna að hlaupa eins hratt og þær geta á glergólfinu á meðan áróðurinn um glerþökin dynur á þeim, og þegar þær renna og detta hjálpar þeim enginn upp. Arðráns-maskínan er þá bara komin með enn eina ómenntaða konuna til að ofur-arðræna.
Ég viðurkenni að ég fyllist andúð þegar ég les þessar fréttir. Andúð á kerfinu. Andúð á grimmdinni sem býr til kerfið. Andúð á því snarklikkaða rugli sem hér er látið viðgangast. Andúð á íslenskri stéttaskiptingu og misskiptingu. Ég vona að við séum sífellt fleiri sem upplifum þá tilfinningu. Vegna þess að ef að við erum nógu mörg og nógu markviss í samstöðu okkar hvert með öðru getum við breytt þessu ástandi. Nógu mörg getum við troðist í gegnum eignarhald milljóna-mannana á samfélaginu okkar. Og það verður einfaldlega að gerast. Við skuldum okkur sjálfum og stúlkunum af stétt verkafólks ekkert minna en það.