- Advertisement -

Fylgdi ekki lögum

„Í eitt og hálft ár hefur stjórnarmeirihlutinn á Alþingi varið af mikilli hörku stjórnsýslu fjármála- og efnahagsráðherra við söluna á Íslandsbanka og reynt að gaslýsa þjóðina um að embættisfærslur hans hafi verið löglegar og eðlilegar,“ segir Jóhann Páll Jóhannsson Samfylkingunni, í samtali við Miðjuna, um ákvörðun Bjarna Benediktssonar.

„Ríkisstjórnarflokkarnir hafa vaðið eld og brennistein til að beina athyglinni frá lagalegri og pólitískri ábyrgð fjármálaráðherra, hindrað að skipuð væri rannsóknarnefnd til að fara ofan í saumana á því sem gerðist og leikið hvern tafaleikinn á fætur öðrum.

Nú liggur fyrir álit umboðsmanns Alþingis sem staðfestir, rétt eins og úttekt Ríkisendurskoðunar og skýrsla Fjármálaeftirlitsins, að gagnrýni okkar í stjórnarandstöðunni var rétt og lögum var ekki fylgt við söluna á Íslandsbanka.

Raunar vöruðum við í Samfylkingunni við því allt frá upphafi að að Bjarni Benediktsson fengi að stýra einkavæðingu Íslandsbanka í ljósi viðskiptasögu hans. Í umsögn sem ég lagði fram sem nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í febrúar 2022 segir eftirfarandi :

…að 63% aðspurðra vantreysti Bjarna Benediktssyni…

„Í könnun MMR sem framkvæmd var í janúar 2021 kemur fram að 63% aðspurðra vantreysti Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, til að leiða einkavæðingu Íslandsbanka. Fulltrúi Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd hefur skilning á þessu vantrausti í ljósi þess að Bjarni Benediktsson tók þátt í viðskiptum sem veiktu Íslandsbanka á árunum fyrir hrun ásamt skyldmennum sínum og viðskiptafélögum sem voru í senn meðal stærstu eigenda og stærstu lántaka bankans. Þá kom Bjarni að viðskiptafléttu árið 2008 þar sem Hæstiréttur Íslands telur að hagsmunir lántaka hafi verið teknir fram yfir hagsmuni bankans sjálfs. Til að fullt traust ríki um söluna á Íslandsbanka er réttast að forsætisráðherra feli öðrum ráðherra að fara með málið.“

Stjórnarmeirihlutinn verður að hugsa sinn gang og sýna auðmýkt. En líka taka sig saman í andlitinu. Núna er 8 prósenta verðbólga, kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur dregist saman tvö ár í röð og vextir í hæstu hæðum, meðal annars vegna efnahagsóstjórnar og þensluhvetjandi ríkisfjármálastefnu ríkisstjórnarinnar, þannig að verkefnin eru ærin.“

-sme


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: