„Fjármálaráðherra hefur tvívegis selt hluti ríkisins í Íslandsbanka hf. á undirverði, fyrst með almennu útboði og nú síðast með svokölluðu tilboðsfyrirkomulagi þar sem ákveðnir aðilar gátu skráð sig sem hæfa fjárfesta með lítilli fyrirhöfn, keypt bréf á afslætti og selt þau um hæl með miklum hagnaði. Við söluna réð íslenska klíkufúsksamfélagið enn eina ferðina ríkjum og það í allri sinni dýrð. Fyrir 40 árum hélt Vilmundur Gylfason þingræðu í þessum sal um valdakerfið sem brást fólkinu í landinu. Eignatilfærsla þess tíma var vegna heimatilbúinnar kreppu ónýts stjórnkerfis. Nú er það vegna fúsksölunnar á Íslandsbanka. Salan á Íslandsbanka í vor bendir ekki til þess að orðið hafi breytingar. Sama má segja um mál ÍL-sjóðs og nú síðast mál lífeyrisaukasjóðs LSR. Þetta eru dæmi um mál sem bera vitni um grátlegt fúsk og vanhæfni stjórnkerfisins sem kostar ríkissjóð og almenning tugi og jafnvel hundruð milljarða króna,“ sagði Eyjólfur Ármannsson, Flokki fólksins, í umræðu um fjárlagafrumvarpið.
„Öryrkjar og eldri borgarar horfa upp á tugprósenta kjaragliðnun sem vex ár frá ári vegna þess að lífeyrir almannatrygginga heldur ekki í við launaþróun líkt og lög kveða á um,“ sagði Eyjólfur,
„Ríkisstjórnin hefur svo sannarlega ekki tekið utan um fátækt fólk. Öðru máli gegnir um yfirstéttina. Ríkisstjórnin hefur gert það að forgangsverkefni að greiða götu þeirra sem nóg hafa á milli handanna. Eitt fyrsta verk ríkisstjórnarinnar á síðasta kjörtímabili var að lækka veiðigjöldin. Ríkisstjórnin réttlætti lækkun bankaskattsins með vísan til heimsfaraldurs Covid. Þjóðin var með því af tugum milljarða króna í tekjur sem hefðu ella farið í ríkissjóð, sameiginlegan sjóð landsmanna.“