Meirihlutinn í Reykjavík verst sem best hann getur að aðrir borgarfulltrúar fái að vita um kaupin á grunnneti Vodafone. Ljósleiðari borgarinnar er skuldum vafinn fyrir og verður í hinu mesta basli að kaupunum loknum. Mogginn skrifar um þetta í leiðara. Leiðarinn endar svona:
„Fjárhagur Reykjavíkurborgar er í molum og skuldirnar gríðarlegar. Þetta hefur orðið til þess að borgin getur ekki sinnt grunnþjónustu við borgarana, eins og þeir hafa fundið tilfinnanlega fyrir, fastir í sköflum síðustu daga. Þegar svo er komið og dótturfyrirtæki Orkuveitunnar eykur skuldsetningu sína verulega á mjög hæpnum forsendum, svo ekki sé meira sagt, er nauðsynlegt að borgarfulltrúar og allur almenningur fái allar upplýsingar um málið og að borgarfulltrúum gefist tækifæri til að ræða það. Ekki þarf að koma á óvart að borgarstjóri og Samfylking hans telji þessi vinnubrögð viðunandi, en óskiljanlegt er að Píratar, Framsóknarflokkur og Viðreisn taki þátt í feluleiknum,“ segir í niðurlagi leiðara Moggans í dag.