Það er í raun óskiljanlegt að fjórir af fimm hæstaréttardómarar skuli synja honum um þetta.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður skrifar:
Hinn 23. júní s.l. hafnaði meirihluti Hæstaréttar í málinu nr 24/2021 kröfu sakbornings í sakamáli um að tveir af þremur dómurum við Landsrétt skyldu víkja sæti í endurtekinni meðferð á máli hans í Landsrétti, en Hæstiréttur hafði ómerkt fyrri dóm Landsréttar á þeirri forsendu að ekki hefði farið fram munnleg sönnunarfærsla í málinu. Með öðrum orðum stóð svo á að dómararnir tveir höfðu sakfellt manninn við fyrri meðferðina án þess að til hefði komið munnlegur framburður fyrir dómi. Hæstiréttur hafði ómerkt þennan fyrri dóm af þessari ástæðu.
Sakborningur taldi eðlilega að hann þyrfti ekki að sæta því að þessir tveir dómarar, sem væru búnir að sakfella hann á ófullnægjandi grundvelli, settust í dóm í máli hans þar sem bætt yrði úr fyrri annmörkum á meðferð málsins. Gerði hann því kröfu um að þessir tveir dómarar yrðu látnir víkja sæti þegar málið yrði dæmt á ný. Í forsendum Hæstaréttar virðist koma fram skilningur á nauðsyn þess að sakborningur hafi ekki ástæðu til að vantreysta dómurum máls, því þar segir m.a.: „Þegar lagt er mat á hæfi dómara til að fara með mál verður að gæta að því að tilgangur hæfisreglna í réttarfarslögum er ekki einungis að tryggja að dómari sitji ekki í máli nema hann sé óhlutdrægur gagnvart bæði aðilum máls og efni þess heldur einnig að tryggja traust aðila jafnt sem almennings til dómstóla með því að koma í veg fyrir að dómari komi að úrlausn máls ef réttmæt tortryggni gæti risið um óhlutdrægni hans.“
Þessari einföldu hugsun sýnist svo varpað fyrir borð síðar í forsendunum þar sem segir svo orðrétt: „Þótt að sínu leyti sé skiljanlegt að ákærði sem sakfelldur hefur verið af þremur dómurum hafi efasemdir um að þessir dómarar muni líta málið öðrum augum við nýja efnislega meðferð þess og telji að þeir muni síður fallast á rök hans fyrir sýknu en nýir dómarar sem ekki hafa komið að því áður getur það eitt og sér ekki talist grundvöllur undir réttmætan efa um að þeir teljist óhlutdrægir.“ Kröfu mannsins var því synjað.
Í þessum forsendum felst alvarleg þversögn. Engin réttarfarsleg þörf er á að synja kröfu mannsins. Hann vildi bara að málið dæmdu dómarar sem hann hefði ekki ástæðu til að ætla að hefðu fyrirfram mótað afstöðu sína til sakarinnar. Það er í raun óskiljanlegt að fjórir af fimm hæstaréttardómarar skuli synja honum um þetta.
Það er lítið hald í því fyrir manninn að einn dómaranna fimm skuli hafa skilað sératkvæði, þar sem hann færir einföld rök fyrir því að taka beri kröfu mannsins til greina. Í atkvæði hans segir m.a. svo: „Fjölmörg dæmi eru um að dómari hafi talist vanhæfur þótt afskipti hans af málefni, meðal annars við meðferð máls fyrir dómi, hafi verið mun veigaminni en að kveða upp efnisdóm í máli, …. Vanhæfisreglur laganna hafa auk þess að geyma víðtæk ákvæði sem mæla fyrir um að hlutrænt séð skuli dómarar taldir vanhæfir þótt síður en svo verði fullyrt að tengsl þeirra við mál séu með þeim hætti að áhrif þurfi að hafa á afstöðu þeirra.“
Nefnir þessi dómari m.a. til sögunnar dæmi úr lögum, þar sem kveði er á um þetta.
Fullyrða má að traust almennings til Hæstaréttar hafi látið verulega á sjá á undanförnum misserum og árum. Því hefur ráðið ófullnægjandi dómsýsla réttarins. Hafi dómarar við Hæstarétt áhuga á að reyna að bæta traust almennings til dómstólsins ættu þeir að reyna að forðast dóma þar sem bersýnilega er brotið freklega á rétti borgara til hlutlausrar meðferðar mála þeirra.