Davíð Oddsson var eitt sinn spurður hvort hann væri langrækinn. Hann sagði svo ekki vera, en bætti við: Ég er minnugur.
Davíð man og hefur sýnilega ekki gleymt brotthlaupi Viðreisnar úr Sjálfstæðisflokki. Staksteinar dagsins eru þessir:
„Benedikt Jóhannesson, stofnandi og fyrrverandi formaður Viðreisnar, upplýsti í gær að hann hygðist sækjast eftir oddvitasæti á framboðslista flokksins á suðvesturhorninu, eins og hann orðaði það. Viðskiptablaðið upplýsti í gær að það hefði heimildir fyrir því að Benedikt gæti í framboði sínu rekist á Daða Má Kristófersson hagfræðiprófessor, því að sá hygðist einnig bjóða sig fram og að líkur stæðu til þess að þeir tveir ásamt Hönnu Katrínu Friðriksson myndu bítast um oddvitasætin í Reykjavíkurkjördæmunum, en vegna fléttulista ætti hún annað oddvitasætið í Reykjavík víst.
Í frétt Viðskiptablaðsins var einnig sagt að samkvæmt heimildum þess væri næsta víst að Benedikt hygðist ekki fara í framboð í Suðvesturkjördæmi, kjördæmi núverandi formanns. Nú má vel vera að Benedikt leggi ekki í þann slag, en þó má ekki útiloka eftir það hvernig formannsskiptin urðu þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tók við af honum að hann teldi hana eiga inni hjá sér svo sem eins og eitt mótframboð.
Annars verður að telja fréttir af framboðum í þessum flokki fremur sérkennilegar. Eini sjáanlegi tilgangur flokksins og ástæða stofnunar hans er áhugi þeirra sem að honum standa að Ísland gangi í ESB. Sú hugmynd er svo slæm að jafnvel þessi flokkur og andlegi systurflokkurinn Samfylking þegja rækilega um þennan ásetning um þessar mundir. Það breytir því ekki að vangaveltur um þetta furðulega framboð eru jafnan furðulegar.“