- Advertisement -

Furðuför Framsóknarflokksins

Viðhorf Það er erfitt að skilja, hvað þá að setja sig í spor Framsóknarmanna í Reykjavík. „Þetta er bara sorglegt. Óskar hafði lagt mikið á sig til að fá oddvitasætið. Segja má að hann hafi verið í fjögurra ára vinnu og baráttu til að tryggja sér sætið,“ sagði áhirfamikill Framsóknarmaður við mig, fyrir ekki löngu. Þarna er að sjálfsögðu verið að tala um Óskar Bergsson, fyrrverandi borgarfulltrúa Framsóknarflokksins og fyrsta oddvita flokksins í kosningunum nú, vorið 2014.

Óskar ákvað að víkja sæti. Guðrún Bryndís Karlsdóttir, sem hafði verið fengin til að gefa kost á sér í fyrsta sæti, kom aldrei til greina sem oddviti, nýgengin í flokkinn og átti þar litlar eða engar rætur. Leit að nú oddvita var klaufaleg. Ekki var talað við Guðrúnu Bryndísi þrátt fyrir opinbera leit að nýjum oddvita. Loks var staðnæmst við Guðna Ágústsson. Guðna frá Brúnastöðum, fyrrverandi landbúnaðarráðherra og sveitamenn einsog þeir gerast flottastir. Hann átti að rífa upp fylgið. Og viti menn, hann, og kannski aðrir honum nærri, töldu að framtíð Reykjavíkurflugvallar væri það sem brynni helst á kjósendum í Reykjavík. Formúlan var fundin.  Framsókn og flugvallasinnar. Ótrúlega vond hugmynd. Og það þrátt fyrir að margir, og meira að segja mjög margir, hafi sagt í skoðanakönnun að flugvöllur ætti að vera áfram í Vatnsmýri.

Óskiljanleg atburðarrás

Ekki er með nokkrum hætti hægt að skilja hvers vegna fyrrverandi formaður flokksins snéri við honum baki á ögurstundu. Guðni sagði óvænt nei, þegar beðið hafði verið eftir jáyrði hans í marga daga. Kannski sá hann hvað verða vildi, að uppleggið var kolrangt. Tungur sögðu hann hafa gert kröfu um að Vigdís mágkona hans Hauksdóttir yrði ráðherra. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins og forsætisráðherra, þvertekur fyrir það.

Hitt er annað að Framsóknarfólk sagðist gera hvað eina sem Guðni vildi til að hann hætti ekki við. Allt kom fyrir ekki. Guðni sagði ekki bara nei. Eftir allt sem á undan er gengið hefði verið reisn í, fyrir Guðna og ekki síst fyrir Framsóknarflokkinn, hefði hann tekið sæti á listanum, til dæmis heiðurssætið. Nei, Guðna er hvergi að finna á listanum sem fær efasemdar fólk til að halda að það hafi slest upp á vinskapinn.

Vandi Framsóknarflokksins eykst enn

Enn varð að leita að oddvita. Guðrún Bryndís Karlsdóttir, sem upphaflega var valin í annað sætið, kom enn ekki til greina. Úr varð að Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir var valin til verksins. Nú viku fyrir kjördag hefur sá sem skipar fimmta sæti listans,  Hreiðar Eiríksson, óskað eftir að verða afmunstraður.

„Ég hef lagt mig fram um að styðja framboð Framsóknar og flugvallarsinna með því að leggja til málanna það sem ég tel rétt og í samræmi við stefnu flokksins. HIns vegar verð ég að rísa upp þegar ég verð þess var að oddvitinn boðar stefnu sem framboðið hefur ekki,“ segir Hreiðar í tilkynningu sem hann birti á Facebokksíðu sinni og lesa má hér.

Heiðar er ekki sóst ósáttur vegna þessara orða Sveinbjargar, sem hún sagði við Vísi í gær: „Við erum búin að búa hér í sátt og samlyndi frá landnámi. Fyrst var það Ásatrú, síðan komu siðaskiptin – allir þekkja þessa sögu. Ég tel bara að á meðan við erum með þjóðkirkju eigi sveitarfélög ekki að úthluta lóðum til byggingu húsa eins og mosku.“

Mistök á mistök ofan

Framsóknarfólki hefur tekist einstaklega illa upp. Hvað sem um Óskar Bergsson má segja, þá er hann er ekki líklegur til að vinna stóra sigra. Með réttu eða röngu er tengdur við fyrirgreiðslu og vinagreiða. Að hann kunni að maka krókinn. Hugmyndin um Guðna var ekki bara óvænt, hún var vond og oftrú margra Framsóknarmanna á fyrrverandi formanni sínum er merkileg. Guðni er góður fyrir sinn hatt, en sem aðsópsmikill pólitíkus í reykvískum stjornmálum, nei. Sigurbjörg Birna hefur skemmt fyrir með ummælum sínum og kannski röngu stöðumati. Oddviti er, þrátt fyrir að vera númer eitt á framboðslista, hlut af heild.

Og að endingu, vesenið sem flokkurinn rataði í með þessu flugvallarbulli er ótrúlegt. Flugvöllurinn er þar sem hann er, flugbrautum verður lokað á næstu árum og í framtíðinni verður honum lokað. Bara eðlileg þróun. Framsókn, og þeir sem kalla sig flugvallarvini, hafa ekkert afl til að stöðva eðlilega framþróun mála.

Og samantekið: Framsóknarfólk í Reykjavík hefur rekið verri kosningabaráttu en nokkur dæmi er um. Allavega í mínu minni.

Sigurjón Magnús Egilsson.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: