FUNDU ÖRPLAST Í LUNGUM, LIFUR, MILTA OG NÝRUM MANNA
Vísindamennirnir segja, að örplastið berist í mannslíkamann með matvælum, sem við neytum, með vatni og innöndun.
Árni Gunnarsson skrifar:
Vísindamenn við ríkisháskólann í Arizona skýrðu frá því í gær, að við rannsóknir á 47 sýnum, sem tekin voru úr lungum manna, lifur, milta og nýrum, hafi fundist örplast í þeim öllum. Einnig fannst efnið Bisphenol, BPA, sem notað er við framleiðslu á plasti og er mönnum hættulegt.
Þetta þykja mjög alvarleg tíðindi, enda ekki fyrr staðfest með svo afgerandi hætti, að örplast berist inn í mannslíkamann, þótt grunur hafi leikið á því um nokkurt skeið. Með rannsóknum á fiski hér við land, hefur örplast fundist í holdi hans.
Allt örplastið er rakið til stærri plasteininga, sem eru víða í umhverfi okkar.
Á síðasta ári er talið, að í heiminum hafi verið framleidd 359 milljón tonn af plastefnum.
Vísindamennirnir segja, að örplastið berist í mannslíkamann með matvælum, sem við neytum, með vatni og innöndun.
Ekki liggur fyrir hver geta verið áhrif örplasts á líffæri og heilsu manna. Þessi niðurstaða vísindamannanna hlýtur að vera hvatning til okkar allra að draga sem mest við megum úr notkun hverskonar plastefni.