Ósættið innan borgarstjórnar tekur á sig ýmsar myndir. Nýjast er að meirihlutinn, sem sýnilega er orðinn þreyttur á minnihlutanum, lét kanna hvað kostar að gefa borgarstjórn og starfsfólki að borða annan hvern þriðjudag þegar fundað er í borgarstjórn. Fundirnir byrja almennt klukkan tvö að degi til og standa einatt fram á kvöld og stundum fram á nótt.
Í eftirfarandi viðtali sýnist að Þórdís Lóa sé búin að fá meira en nóg af fundarsetunni með minnihlutanum. Það er sem gæti fundarþreytu.
Það var Stöð 2 tók viðtalið við Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, formann borgarráðs og oddvita Viðreisnar, vegna kostnaðar við matinn.
„Það var ekki bara markmiðið með þessu að horfa bara á matarkostnaðinn. Markmiðið var að sjá heildarkostnaðinn við borgarstjórnarfundi núna. Á þessu kjörtímabili hafa þeir lengst til muna frá því sem áður var. Við vildum setja það upp á borðið.
Hér er mikið af fólki sem vinnur með okkur. Hér eru starfsmenn borgarstjórnar, hér er fólk í tækni, hér eru öryggisverðir. Þegar langir fundir eru þá koma líka inn varaborgarfulltrúar og allt er þetta kostnaður sem er bara mikilvægt að skoða. Það er fullt af tækifærum til úrbóta í því að skoða þetta.“
Er mikið mál að breyta fundartímanum, byrja kannski klukkan tíu að morgni?
„Borgarstjórnarfundir eru tvisvar sinnum í mánuði og við oft tekið umræðu um hvort við eigum að byrja fyrr, við byrjum klukkan tvö á daginn, þetta er svolítið gamaldags að byrja svona seint, en við verðum þá líka að vera viss um það að þeir verði ekki svona langir. Við höfum fengið yfirlýsingar frá minnihlutanum um að þau séu tilbúin til að byrja fyrr, en þá viljum við líka vita það að við séum ekki að fara að keyra með enn þá lengri fundi inn í nóttina. Hér erum við bara á ákveðnum byrjunarreit. Og höfum tækifæri til úrbóta. Mér heyrist á öllum í dag vera hissa yfir þessum kostnaði og vera tilbúnir til að vera með styttri fundi. Það vona ég allavegana.“