Greinar

FULLVELDI, HVERRA?

By Miðjan

November 21, 2018

Gunnar Smári Egilsson.

Gunnar Smári skrifar: Þegar Ísland varð fullvalda 1. desember 1918 var kosningaréttur takmarkaður. Það er því ofmælt að segja að þjóðin hafi fengið fullveldi þennan dag. Aðgengi að völdum var takmarkað formlega, og enn frekar óformlega. Það var ekki svo, og er ekki enn, að allir séu jafnir fyrir völdum á Íslandi. Hin efnameiri og þau sem klórað hafa sig inn í elítuna hafa miklu betra aðgengi að völdum. Stórir hlutar landsmanna búa við það að á þau er lítið hlustað, þau eru ekki ávörpuð og þau eru ekki með í ráðum þegar ákvarðanir eru teknar um mótun samfélagsins. Þau sitja ekki einu sinni við borðið þegar ákvarðanir eru teknar um þeirra eigin mál. Þetta á við um eftirlaunafólk, öryrkja, leigjendur, láglaunafólk, innflytjendur og marga aðra hópa sem peningavaldið hlustar ekki á og sem elítan telur sig geta hugsað fyrir.

1918 var kosningaréttur bundinn við 25 ár. En þó ekki. Þremur árum fyrr höfðu konur fengið kosningarétt og einnig eignalausir karlar, sem áður fengu ekki að kjósa. Á þessu voru þó takmarkanir. Í fyrsta lagði fengu konur og karlar sem höfðu fengið framfærslustyrk frá sveitarfélögum ekki að kjósa og í öðru lagi var konum og eignarlausum körlum ekki veittur kosningaréttur til jafns við aðra strax, heldur miðaðist réttur þeirra fyrst við 40 ár. Til stóð að þessi mörk lækkuðu síðan um eitt ár á ári, svo að konur og eignalausir karlar fengju jafnan kosningarétt við karla sem áttu eignir, árið 1940. Þessu var reyndar breytt árið 1920, svo kosningaréttur allra miðaðist við 25 ár. Nema náttúrlega fátækasta fólkið, þau sem fengið höfðu framfærslu frá sveitarfélögum. Hin fátæku fengu ekki kosningarétt fyrr en 1934.

Til að gefa mynd af takmörkun kosningaréttar 1918 þá voru aðeins tæplega 60 prósent kvenna eldri en 25 ára á kjörskrá þegar kosið var til þings 1919. Rúmlega 40 prósent kvenna voru yngri en 37 ára eða voru í skuld við sitt sveitarfélag vegna framfærslustyrks. Tæp 86 prósent karla voru á kjörskrá. Um 14 prósent karla fengu ekki að kjósa vegna fátæktar eða eignaleysis og aldurs.

Þrátt fyrir aukin kosningarétt var kjörsókn ekki mikil í þessum kosningum 1919. Aðeins 74 prósent karla á kjörskrá kusu og aðeins 39 prósent kvenna. Það átti eftir að líða langur tími þar til aukin kosningaréttur skilaði sér í virkri kosningaþátttöku hinna fátæku og valdalausu. Hin fátækari upplifðu, þá sem nú, að stjórn landsins væri í höndum annarra; hinna efnameiri og þeirra sem tilheyrðu valdastéttunum. Kosningaþátttaka karla fór ekki yfir 90 prósent fyrr en 1937 og kvenna ekki fyrr en 1974. Síðan hefur kosningaþátttaka minnkað, en hún er þó enn mun meiri en í fyrstu kosningum hins fullvalda ríkis 1919. Í fyrra var koningaþátttaka 81,2 prósent en hún var aðeins 58,7 prósent 1919. Þótt almenningur upplifi enn að hann fái litlu ráðið um stjórn landsins þá hefur hann meiri trú á áhrif sín í dag, en fyrir hundrað árum.

Aukinn kosningaréttur hafði mikil áhrif á íslenskt samfélag eins og annars staðar á Vesturlöndum. Með kosningarétti kvenna og fátækari karla snerist stjórnmálaumræðan í meira mæli að hagsmunum hinna verr stæðu, og ekki einvörðungu um hagsmuni valdastéttarinnar, þótt hennar hagsmuni væru ætíð tryggðir. Þessi áherslubreyting færði okkur ókeypis heilbrigðis- og menntakerfi, félagslegt íbúðarhúsnæði, eftirlaun og örorkulífeyri og margskonar réttindi almennings. Segja má að aukin kosningaréttur hafi fært Vesturlöndum gullöld sína, mestu jafnaðarsamfélög sem þekkst hafa í sögunni, frá eftirstríðsárunum og fram undir 1980.

Viðbrögð peningavaldsins og valdastéttanna við þessum samfélagsbreytingum var það sem kallað er nýfrjálshyggja. Hún byggist meðal annars á því að brjóta niður og skerða völd verkalýðshreyfingarinnar, bæði formlega og með því að skilgreina hlutverk hreyfingarinnar þröngt og frá almennri samfélagsmótun. En einnig með því að flytja sem flestar ákvarðanir frá hinu pólitíska sviði, þar sem hver maður hefur eitt atkvæði (líka konur og fátækir karlar), og yfir á markaðinn, þar sem hver króna hefur eitt atkvæði; þar sem hin ríku drottna yfir sviðinu. Á nýfrjálshyggjutímanum voru grundvallarþættir efnahagsstjórnarinnar fluttir frá hinum pólitíska valdi og yfir á markaðinn, til peningavaldsins; gengisskráning, vaxtaákvarðnir, uppbygging húsnæðismarkaðarins og aðrar veigamiklar ákvarðanir um mótun samfélagsins, jafnvel ákvarðanir um skattheimtu og uppbyggingu innviða voru fyrst og síðast teknar út frá meintum þörfum hins svokallaða markaðar, það er út frá hagsmunum og væntingum hinna ríku og valdamiklu.

Það voru því fyrst og fremst valdastéttirnar sem öðluðust fullveldi þjóðarinnar 1918. Og þótt almenningur hafi síðar haft nokkur áhrif á hvernig með þetta fullveldi var farið, einkum á eftirstríðsárunum, þá er öllum ljóst í dag að fullveldi Íslands er ekki fullveldi fjöldans heldur fyrst og fremst fullveldi hinna fáu í dag. Meginkerfi samfélagsins eru mótuð að hagsmunum hinna ríku og valdamiklu og hin fátækari og valdaminni upplifa sig afgirt frá öllu valdi; skynja hvernig hagsmunir þeirra og kröfur verði ætíð að víkja fyrir hagsmunum og kröfum þeirra sem í reynd fara með öll völd; þeirra sem eiga fullveldi þjóðarinnar.

Þau hátíðarhöld sem ríkisstjórn og Alþingi standa fyrir í tilefni af hundrað ára afmæli fullveldisins draga þetta skýrt fram. Í stað þess að þingmenn og ráðherrar heimsæki og hlusti á almenning, er almenningi boðið að koma í Alþingishúsið einn dag. Eða að standa upp í hlíðinni með öðrum ferðamönnum og horfa á valdið niðri á völlunum.