Mannlíf

Fullt veski af peningum og stór kók

By Miðjan

November 06, 2020

Það var kvöld í desember. Ég, þá unglingur, var að fara á handboltaæfingu hjá Þrótti, í þá nýbyggðu íþróttahúsi Vogaskóla. Það var hvasst og ég horfði niður í gangstéttina á Gnoðarvogi, varði andlitið undan snjófjúkinu. Skömmu áður en ég kom að Skeiðarvogi sá ég að seðlaveski lá á gangstéttinni. Ég tók það upp og sá að í því voru talsverðir peningar.

Ég hljóp niður í Teit, eins og sjoppan var kölluð, og bað afgreiðslukonuna þar að geyma veskið ef eigandinn leitaði þess.

Ég fór á æfinguna. Að henni lokinni fórum við allir niður í Teit. Strákarnir keyptu sér kók. Afgreiðslukonan sagði mér að skilríki hafi verið í veskinu. Hún fann út hver eigandinn var. Hringdi í hann sem kom og sótti veskið. Hún sagði manninum að unglingstrákur hefði fundið veskið og beðið sig fyrir það.

Maðurinn taldi víst peningana og sá að ekkert vantaði í veskið. Sá þakkaði ekki einu sinni fyrir sig, sagði konan mér.

Jæja, strákarnir sötruðu kókið með við töluðum um æfinguna og komandi leik.

„Talaðu aðeins við mig,“ sagði afgreiðslukonan og benti mér á að koma að lúgunni. Ég gerði það.

„Ert þú ekki að drekka kók eins og hinir strákarnir,“ spurði hún. „Nei,“ svaraði ég. „Hvers vegna ekki,“ spurði hún. Þetta var erfið spurning. En ég ákvað að segja sem var. „Ég á ekki pening,“ svaraði ég.

„Elsku drengurinn minn. Ég borga kók fyrir þig,“ sagði konan og áður en ég gat afþakkað hafði hún teygt sig í stóra kók og opnað. Ég þakkaði henni fyrir.

Eftir það gaf hún mér alltaf stóra kók þegar svo hittist á að hún var á vakt þegar ég kom af æfingum með Þrótti í Vogaskóla.

Af mbl.is í dag: