Gangi áform stjórnvalda eftir um aukið fé í fjárlögum næsta árs til uppbyggingar Landspítala verður hægt að bjóða út fullnaðarhönnun meðferðarkjarna nýs Landspítala, gatna- og lóðaframkvæmdir við sjúkrahótelið og byggingu þess.
Þetta kom fram í máli Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra á ráðstefnu samtakanna Spítalinn okkar fyrir helgi.
Deiliskipulag, svæðisskipulag og aðalskipulag Reykjavíkurborgar hefur verið samþykkt miðað við uppbyggingu Landspítala við Hringbraut. Staðfesting Skipulagsstofnunar liggur fyrir og vilji Alþingis er skýr hvað þetta varðar, sem meðal annars var innsiglaður í vor þegar ráðist var í útboð á fullnaðarhönnun sjúkrahótels við Hringbraut“ sagði ráðherra meðal annars.
Kristján Þór segir að viljann til framkvæmda hafi ekki vantað heldur færar leiðir til að fjármagna framkvæmdirnar skynsamlega þannig að stöðu ríkissjóðs sé ekki stefnt í voða. Áætlað er að ríkisstjórnin bæti við í fjárlagafrumvarpið 875 milljónum. Sagði ráðherrann að þetta þýddi að í fjárlögum næsta árs yrðu 945 milljónir króna til verksins.
Samkvæmt uppfærðri framkvæmdaáætlun og miðað við verðlag núna er heildarkostnaður við sjúkrahúsbyggingarnar; þ.e. meðferðarkjarnann, rannsóknarhúsið og sjúkrahótelið, rúmir 48 milljarðar króna sem dreifist á sjö ár.
Sjá alla frétt á vef ráðuneytis.