Fréttir

Fullkomlega ósammála

By Miðjan

March 14, 2022

Sem oftast áður voru þingmenn stjórnar og svo stjórnarandstöðu fjarri sammála um fjármálastefnu næstu ára. Hér eru skýr dæmi um það.

„Við greiðum hér atkvæði um rammann sem mun ríkja utan um öll umsvif hins opinbera út kjörtímabilið. Þessi rammi er ekki í takt við stjórnarsáttmála sem kynntur var hér með pompi og prakt eftir átta vikna samningaviðræður. Þetta er ekki aðeins skoðun þingmanna minni hlutans heldur skoðun fjármálaráðs. Í umsögn fjármálaráðs segir bókstaflega að samhljóm skorti milli stjórnarsáttmála og fjármálastefnu. Ljóst er af lestri fjármálastefnu að reksturinn sem ríkisstjórnin boðar næstu árin er ekki í takt við málflutninginn í dag. Það er siglt undir fölsku velferðarflaggi,“ sagði Kristrún Frostadóttir Samfylkingu.

Haraldur Benediktsson Sjálfstæðisflokki var mjög ósammála:

„Fjármálastefnan er tæki sem enn er með ákveðnum hætti í þróun. Fjármálastefna sem við ætlum nú að greiða atkvæði um er vitnisburður um að hér eiga að vera sterk og traust tök á ríkisfjármálum sem er gríðarlega mikilvægt fyrir efnahagslíf og peningastefnu í þessu landi, sem undirbyggir velferð þessa samfélags. Ég trúi því og treysti að fjármálastefnan, þær fyrirætlanir sem þar koma fram, gangi eftir. Við höfum aftur á móti reynslu af því að ýmislegt getur gerst og það sem einu sinni hefur gerst getur alltaf gerst aftur. Ég hef góða sannfæringu fyrir því að sú stefna sem við greiðum hér atkvæði um sé grunnur að sterku samfélagi og sterku efnahagslífi sem undirbyggir sterkt velferðarkerfi.“