Þeir fuglar eru verstir sem skíta í eigið hreiður
Um VG og Gylfa Arnbjörnsson
„Ég hef það fyrir sið þegar ég ek ofan af Vatnsenda í vinnuna mína niður í Vantsmýrinni að hlusta á heimsfréttir BBC. Einn morguninn fyrir um það bil tveimur árum heyrði ég eftirfarandi frétt: Ísraelskur hermaður skaut til bana palestínskan unglingsstrák sem hafði hent grjóti í skriðdrekann hans. Talsmaður ísraelska hersins sagði að hermaðurinn hefði skotið viðvörunarskoti áður en hann miðaði á strák, skaut og drap. Nóttina eftir dreymdi mig að ég sæti með föður mínum heitnum yfir kaffibolla að ræða fréttina. Ég var að hneykslast á því að gyðingar sem eru best menntaða og gáfaðasta þjóð í heimi skyldi gera svona; ekki endilega að hermaðurinn hefði skotið drenginn vegna þess að hermenn eru þjálfaðir í því að meiða og drepa aðra, og meðal gyðinga eins og annarra þjóða eru vondir einstaklingar og heimskir, heldur að talsmaður hersins hafi talið það vörn fyrir verknaðinn að hermaðurinn skyti viðvörunarskoti. Faðir minn hlustaði á mig um stund þögull en fór síðan með eftirfarandi vísu og hvarf eins og hans var von og vísa:
Er stöndum við hér á staðnum svarta
og stríðið geysar í logandi báli
það eina sem heimurinn þarf er hjarta
höfuðið skiptir svo litlu máli.
Ástæða þess að ég rifja þetta upp er hún Sólveig Anna Jónsdóttir sem hefur komið inn í verkalýðsbaráttuna á Íslandi með það hjarta sem verkalýðshreyfinguna hefur vantað í áratugi. Verkalýðsbaráttan á Íslandi hefur upp á síðkastið verið gagnslaus í hjartaleysi sínu og markast af ósigrum verkalýðsins í baráttu hans við að halda sínu. Þar hefur verkalýðnum orðið flest til ógæfu en fátt meira en lífeyrisjóðakerfið, sem hefur gert það að verkum að verkalýðsfélögin hafa gjarnan hugsað meira um ávöxtun sjóðanna sem fjárfesta í atvinnu-fyrirtækjum landsins en stundarhagsmuni félagsmanna sinna, sem vinna hjá sömu fyrirtækjum. Það eru stundarhagsmunirnir sem gera þeim og börnum þeirra kleift að framfleyta sér um líðandi stund. Annað stórt vandamál verkalýðsins eru menn eins og Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ, sem þiggur margföld laun almúgans fyrir það eitt að gera ekkert þegar best lætur; hjartalaus dýrategund sem hugsar meira um spónana í aski sínum en þeirra sem minnst mega innan ASÍ. Ég er í litlum vafa um að dugleysi Gylfa hefur reynst verkalýðnum dýrara en heimsmynd Bjarna Benediktssonar.
En nú er að rofa til í stéttarbaráttu á Íslandi. Þökk sé Sólveigu Önnu og hennar meðreiðarfólki. Það gladdi gamlan erfðafræðing að frétta að hún sé dóttir Jóns Múla Árnasonar sem er enn ein sönnum þess að hjartað sé eitt af þeim líffærum sem erfast. Í því sambandi vil ég minna lesandann á söguna af því þegar Íslandi var laumað inn í NATO árið 1949 og af hlutust mikil mótmæli á Austurvelli. Lögregla og sjálfskipuð varnarsveit reyndu að verja Alþingishúsið fyrir mótmælendum. Daginn eftir kærðu bræður tveir úr varnarsveitinni, sem voru mestu íþróttamenn þjóðarinnar á þeim tíma, Jón Múla Árnason fyrir að berja sig. Mér sýnist Sólveig Anna hafa erft átakagetu föður síns. En Jón Múli átti fleiri strengi í hljóðfæri sínu en kraftinn til átaka. Þegar ég var níu ára var ég sendur til sumardvalar í sveit þar sem ég fékk ekki nægilega mikið að borða og annað atlæti sem var ekki við hæfi. Eftir nokkrar vikur tókst mér að lauma mér í síma og hringja í móður mína og kvarta. Foreldrar mínir áttu ekki bíl þannig að Jón Múli, sem var einn besti vinur föður míns og átti gamlan Willisjeppa var fenginn til þess að ná í mig. Ég man eins og það hefði gerst í gær hvernig hann hoppaði út úr jeppanum eftir að hann staðnæmdist á hlaðinu og með látbragði einu saman gerði bónda ljóst að ekki væri allt með feldu. Á leiðinni að Hellisheiðinni skammaði hann mig fyrir að hafa ekki strokið. Á leiðinni yfir heiðina sagði hann mér sögur og raulaði fyrir mig nokkra lagstúfa og lagði mikið á sig til þess að láta strák líða eins og hann væri einhvers virði. Mér sýnist Sólveig Anna hafa erft þessa hlýju sem nærði mig árið 1958.
Þegar þyrnirósarsvefn stéttarbráttunnar er rofinn af róttækri konu eins og Sólveigu Önnu eru það fyrst og fremst tveir aðilar í samfélaginu sem ættu að fagna því og styðja hana, Vinstri grænir og Alþýðusamband Íslands. Hvorugur þeirra hefur sagt orð henni til stuðnings og forseti ASÍ hefur meira að segja séð ástæðu til þess að agnúast út í þá sem gera það. Stéttarbaráttan var ein af ástæðum þess að VG urðu til sem stjórnmálaflokkur og hún er alls eina réttlætingin fyrir ASÍ. Það er því með sorglegum ólíkindum að önnur þessara stofnana skuli bregðast við Sólveigu Önnu með þöglu fálæti og hin með ókvæðisorðum.
Í Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar sagði draumkonan aðspurð um Þorgils skarða í draumi mærinnar Jóreiðar í Miðjumdal: Illir þykja mér allir þeir fuglar er í sitt hreiður skíta.“
Tekið af Facebooksíðu Kára Stefánssonar, rétt í þessu.