ÓBK: „Það hljómar þversagnakennt, en sú hætta er raunverulega fyrir hendi að fjölmiðlaflóran verði fátækari eftir að ríkisstyrkir verða teknir upp.“
„Í síðustu viku kynnti menntamálaráðherra tillögur um endurgreiðslur á hluta ritstjórnarkostnaðar einkarekinna fjölmiðla. Frumvarpið hefur verið kynnt í samráðsgátt stjórnvalda,“ skrifar Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í Mogga dagsins.
Hann segir í beinu framhaldi:
„Ég efast ekki um að góður hugur liggur að baki frumvarpi ráðherra og einlægur ásetningur að grípa til aðgerða til styrkja sjálfstæða fjölmiðla. Frumvarpið nær því miður ekki tilgangi sínum og gengur raunar þvert á hugmyndir um að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði fjölmiðla. Fjölmiðill sem byggir tilveru sína á ríkisstyrkjum, sem eru auk þess undir yfirumsjón ríkisstofnunar, getur aldrei talist fjárhagslega sjálfstæður.“
Grein Óla Björns sýnir að langt í frá er fullur stuðningur við frumvarpið innan ríkisstjórnarflokkanna. Óli Björn sér meira að segja þessa sviðsmynd:
„Þá eru líkur á því að styrkjakerfið í ætt við það sem kynnt hefur verið, skekki samkeppnisstöðu sjálfstæðra fjölmiðla þar sem þeir miðlar sem geta ekki uppfyllt kröfur sem gerðar verða, standa hlutfallslega veikari að vígi gagnvart öðrum. Það hljómar þversagnakennt, en sú hætta er raunverulega fyrir hendi að fjölmiðlaflóran verði fátækari eftir að ríkisstyrkir verða teknir upp.“
Óli Björn, sem er helsti stjórnmálamaður Sjálfstæðisflokksins, leggur til að í stað þess að stofnað verði til nefndar og settar allskyns reglur sé heillavænlegra að lækka skatta á fjölmiðla:
„Ég hef varpað fram þeirri hugmynd að afnema virðisaukaskatt af áskrift fjölmiðla. Hugmyndin er langt í frá fullkomin og helsti gallinn er að stór hluti einkarekinna fjölmiðla nýtur í engu slíkrar ívilnunar.
Nauðsynlegt er að skattaívilnanir séu samræmdar og gegnsæjar. Allir – í þessu tilfelli einkareknir fjölmiðlar – eiga að sitja við sama borð og fá hlutfallslega sömu ívilnun. Þetta er hægt með því að fella tryggingargjaldið niður. Með því næst hlutfallslega sama lækkun á hvern fjölmiðil miðað við launakostnað. Skattaívilnunin er þannig byggð á rekstri einstakra fjölmiðla. Hægt er að setja þak á ívilnunina þannig að hún nái aðeins til launa sem skattlögð eru í neðra þrepi tekjuskatts, en laun í efra þrepi beri tryggingargjaldið.
Með þessu verður engin nefnd eða opinber stofnun sem metur hvort umsókn fjölmiðils fullnægi tilteknum skilyrðum heldur er skattkerfið sniðið að rekstrarformi hvers og eins fjölmiðils án þess að umsýslukostnaður stofnist af hálfu ríkis og fjölmiðils við úthlutun fjármuna.
Niðurfelling tryggingagjalds er leið til að rétta sjálfstæðum fjölmiðlum vopn þegar þeir reyna að verjast áhlaupi fílsins í stofunni – Ríkisútvarpsins.“