Það eru vísbendingar um að sósíalisminn sé að vakna til lífsins á ný.
Styrmir Gunnarsson er að venju með góða grein í laugardagsmogganum. Nú fjallar hann um ungt fólk, Sjálfstæðisflokkinn og Vöku í Háskóla Íslands, en félagið hefur löngum verið spyrt við Sjálfstæðisflokkinn, með réttu eða röngu.
Í grein Styrmis segir:
„Þegar stefnuskrá Vöku vegna kosninga til stúdentaráðs, sem fram fóru fyrr í þessari viku, er lesin, vaknar sú spurning hvort Sjálfstæðisflokkurinn geti eitthvað af henni lært í viðleitni til þess að endurheimta sitt fyrra kjósendafylgi. Að undanförnu hefur Sjálfstæðisfélag Kópavogs efnt til fundar á hverjum laugardagsmorgni í tilefni af 90 ára afmæli flokksins í vor, þar sem staða flokksins er til umræðu. Það framtak er til fyrirmyndar og jafnframt til marks um að til eru trúnaðarmenn í Sjálfstæðisflokknum sem telja að leiðin til þess að endurheimta fyrri styrk sé ekki að þegja um núverandi stöðu. Og raunar má velta því fyrir sér við lestur á stefnuskrá Vöku hvort frjálshyggjuskeiði síðustu fjögurra áratuga sé að ljúka,“ skrifar ritstjórinn fyrrverandi.
„En þegar velt er vöngum yfir því hvað unga Ísland sé að hugsa koma fleiri við sögu en Vökumenn og framtíðarsveit Sjálfstæðisflokksins. Það eru vísbendingar um að sósíalisminn sé að vakna til lífsins á ný og þá ekki sízt meðal yngra fólks, sem lítur svo á, að það séu engin tengsl á milli Sovétríkjanna og hugmyndafræði sósíalismans,“ skrifar Styrmir og endar á þessari setningu:
„Kannski er meira um að vera hjá unga Íslandi en gamla Ísland áttar sig á.“