Frjálshyggjumenn undirbúa mótmæli
„Mér hefur fundist of hart gengið fram í sóttkvíarmálum hér á landi þar sem menn eru settir í sóttkví við minnsta tilefni. Ef þú tekur refsistefnu gegn því að veikjast verður það til þess að fólk er latara við að leita sér lækninga,“ segir Jóhannes Loftsson, formaður Frjálshyggjufélagsins, í Moggaviðtali.
Mogginn segir hóp á vegum Frjálshyggjufélagsins, undirbúa mótmæli gegn sóttvarnaðgerðum stjórnvalda. Jóhannes formaður segir að kveikjan að þeim sé óánægja með íþyngjandi inngrip ríkisvaldsins til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar. Stjórnvöld hafi ekki tekið nægilegt tillit til hagkerfisins og þegar upp er staðið verði það þjóðinni dýrkeyptara en að fara í hófstilltari aðgerðir.
Jóhannes segist andsnúinn öllu samkomubanni. „Það má ekki gleyma því að núverandi leið, að stoppa og loka næstu árin án þess að meta skaðann, hefur áhrif á hagkerfið allt og þar með heilbrigðisþjónustuna næstu árin.“