„Ríkisstjórn Íslands hefur flúið ábyrgðina sem fylgir því að stjórna og falið lækni efnahagsstjórnina,“ skrifar Jóhannes Leifsson formaður frjálshyggjufólks, í Moggann. Þarna er greinilega átt við Þórólf Guðnason sóttvarnarlækni.
„Fyrir vikið eru allar aðgerðir nú eingöngu líknarmeðferð á sjúklingi sem mun deyja ef hann fær ekki súrefni. Eina leiðin til að bjarga Íslandi frá öðru hruni er að fólk láti í sér heyra og minni stjórnmálamenn á að þeir munu verða dregnir til ábyrgðar fyrir þennan nýja afleik aldarinnar. Sannleikurinn mun koma í ljós. Enn er von um að hægt sé að komast hjá harmleiknum. En til þess að svo verði þarf fólk að rísa upp og sýna viðspyrnu og láta í sér heyra strax, því eftir að sjúklingurinn er dauður verður honum ekki bjargað lengur,“ skrifar Jóhannes.
„Auðvitað á að nýta árangurinn gegn kórónuflensunni til að opna landið strax aftur. Ef það væri gert nú myndi það vekja heimsathygli og laða hingað frelsisþyrsta ferðamenn sem kæmust hvergi annað. Íslendingar þyrftu áfram að sýna ýtrustu aðgát í langan tíma, en ávinningurinn af því að gefa ferðaiðnaðinum tækifæri á að berjast fyrir lífi sínu gæti orðið margfaldur ef hrunið yrði umflúið,“ skrifar Jóhannes.