Spurningin sem eftir stendur er sú hvort Íslendingar vilja að haldið sé áfram að reka fjölmiðil sem í nafni þjóðarinnar hagar sér svona.
„Mér sýnist að orðgapar samfélagsins séu farnir að ganga út frá ávirðingum mínum sem vísum án þess að þurfa að finna þeim stað hverju sinni. Þannig var það til dæmis í silfraða þættinum í sjónvarpi allra landsmanna, þar sem þrír af fjórum viðmælenda í þættinum töluðu fyrirvaralaust um mig sem þrjót sem beitti sér gegn þolendum ofbeldisbrota. Ekki þótti ástæða til að gefa mér kost á að koma fram mínum sjónarmiðum um sjálfan mig í þessum þætti,“ skrifar Jón Steinar Gunnlaugsson í Moggann í dag.
„Eftir að hafa hlustað á þennan boðskap í sjónvarpi allra landsmanna hafði ég samband við stjórnandann, Fanneyju Birnu Jónsdóttur, með ósk um að hlutur minn yrði réttur með því að gefa mér kost á að skýra mína hlið á málinu. Ég var jú maðurinn sem talað hafði verið um. En óekkí. Konan svaraði því til að ég væri eitthvað sem hún kallaði „opinbera persónu“ og um slíkar persónur mætti fjalla einhliða með meiðingum án þess að gefa þeim kost á að tjá sig,“ skrifar hann og bætir við:
„Það er gott að geta verið dagskrárstjóri á ríkismiðlinum og fara þar með vald til að miðla almenningi hrakyrðum um menn án þess að gefa þeim möguleika til andsvara. Þetta er að mínum dómi í besta falli lágkúra en í því versta mannorðsmorð. Spurningin sem eftir stendur er sú hvort Íslendingar vilja að haldið sé áfram að reka fjölmiðil sem í nafni þjóðarinnar hagar sér svona.“