- Advertisement -

Frítt á Kjarvalsstaði

Menning Listasafn Reykjavíkur býður ókeypis aðgang á sýninguna Út á spássíuna – textar, skissur, og pár í list Kjarvals til sýningarloka, sunnudagsins 3. janúar 2016. Sýningin beinir sjónum að efninu, aðferðinni og ímyndunaraflinu í list Kjarvals. Við sjáum Kjarval að störfum með penna eða pensil á lofti: hann teiknar, skrifar, rissar með bleki, blýanti, eða tússi.

Titillinn Út á spássíuna er tilvísun í eins konar hliðarveröld Kjarvals sem birtist í sendibréfum, í minnisbókum, á umslögum og alls kyns pappírssnifsum. Á sýningunni er grafið niður í þennan einkaheim Kjarvals og dreginn fram fjöldi teikninga og ýmis skrif þar sem hann samþættir texta og teikningu. Mörg verkanna eru nánast sjálfsprottin og óreiðukennd, þau spegla óstöðvandi sköpunarþrá Kjarvals og kvikan huga hans.  Á sýningunni glittir þannig í margar hliðar Kjarvals: rithöfundinn, skáldið, nýyrðasmiðinn, vininn, samferðamanninn – en umfram allt listamanninn sem alltaf kemur á óvart.

Í tengslum við sýninguna kom út bókin Jóhannes S. Kjarval: Út á spássíuna, gefin út af Crymogeu. Kristín G. Guðnadóttir og Æsa Sigurjónsdóttir völdu efni bókarinnar og rituðu texta en þær eru jafnframt sýningarstjórar sýningarinnar á Kjarvalsstöðum. Bókin fæst á Kjarvalsstöðum.

Kjarvalsstaðir verða lokaðir frá og með 4. janúar5. febrúar 2016 vegna endurbóta. Kjarvalsstaðir opna á ný á safnanótt með tveimur stórum Kjarvalssýningum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: