„Sjávarútvegur á Íslandi er sennilega einn sjálfbærasti í heimi og á að vera stolt lands og þjóðar. Til að svo megi verða þurfa að verða breytingar. Atburðir síðustu daga og missera sýna það bersýnilega. Við þurfum að vera opin fyrir breytingum, opin fyrir að bæta undirstöðuatvinnuveginn og opin fyrir að gera Ísland betra,“ skrifar Friðjón R. Friðjónsson frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokks í Reykjavík í Moggann.
Tilefnið er augljóst. Samherji. Hvað vill Friðjón?
„Ein leið sem líkleg væri til að auka sátt um sjávarútveginn á Íslandi er sú að lækka hámarksaflahlutdeild óskráðra fyrirtækja en um leið leyfa skráðum félögum sem lúta aðhaldi og gagnsæiskröfu aðallista Kauphallarinnar að halda 12% hámarkinu eða hækka það. Um leið þyrfti að setja skýrar reglur um hvað teljist tengdir aðilar og jafnvel setja kvaðir um að hluti bréfa félaganna þurfi að vera í dreifðri eign samkvæmt fyrirframskilgreindu lágmarki.
Þannig yrði eina leiðin fyrir sjávarútvegsfyrirtæki til að ná verulegri stærðarhagkvæmni að vera í dreifðari eignaraðild en nú er og lytu þau þá síður duttlungum eða ákvörðunum einstaka eigenda,,“ skrifar hann.
Þó Friðjón nefni Samherja ekki á nafn geta hugrenningar hans varla átt við nokkuð annað fyrirtæki.
„Með því að setja inn hvata fyrir sjávarútvegsfyrirtæki til að lúta gagnsæiskröfum og aðhaldi hlutabréfamarkaðarins er komin leið fyrir almenning til að vera frekari þátttakendur í sjávarútvegi, annaðhvort með beinum hætti á hlutabréfamarkaði eða í gegnum lífeyrissjóði. Það tengir fólk betur við afkomu sjávarútvegsins og hagsmunir fyrirtækjanna og almennings færu betur saman.
Skráð félög í Kauphöll þurfa skv. lögum að gera grein fyrir stefnu í umhverfismálum og samfélagsábyrgð. Það er nokkuð sem fleiri fyrirtæki mættu reyndar tileinka sér. Þá gera sömu lög kröfu um að skráð félög geri grein fyrir stefnu í mannréttindamálum og hvernig spornað er við spillingar- og mútumálum,“ skrifar Friðjón R. Friðjónsson.