Frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið er á dagskrá Alþingis í dag.
„Frumvarpið felur í sér skýrari upplýsingarétt almennings er varðar málefni Ríkisútvarpsins og tekur af skarið um að réttur almennings nær til upplýsinga um málefni starfsmanna Ríkisútvarpsins líkt og um starfsmenn stjórnvalda í skilningi upplýsingalaga. Er það til þess fallið að auka gagnsæi í starfsemi Ríkisútvarpsins. Frumvarpið hefur ekki sérstök áhrif að öðru leyti á stjórnsýslu ríkisins, enda er ekki um grundvallarbreytingu að ræða,“ segir í greinargerð frumvarpsins.
„Ríkisútvarpið er þjóðarmiðill og starfrækir fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Það er því augljós ávinningur af því að auka gegnsæi í starfsemi þess og að réttur almennings til aðgangs að upplýsingum um hana sé ríkur. Verði frumvarpið að lögum mun það hafa áhrif á upplýsingarétt almennings sem og starfsmenn og starfsemi Ríkisútvarpsins.“