- Advertisement -

Fréttamenn eru áhyggjufullir

Ályktun stjórnar Félags fréttamanna vegna úrskurðar siðanefndar RÚV27. mars 2021:

Stjórn Félags fréttamanna lýsir vonbrigðum sínum með niðurstöðu siðanefndar RÚV og áhyggjum af því hvaða afleiðingar hún getur haft fyrir gagnrýna fjölmiðlun. Upp er komin sú staða sem margir vöruðu við og óttuðust þegar siðareglur RÚV voru settar. Ákvæði þeirra um bann við tjáningu á samfélagsmiðlum er notað til að hefta tjáningarfrelsi fréttamanna og í tilraunum til að þagga niður í fréttamönnum og umfjöllun þeirra. Fréttamenn geta illa setið undir því að siðareglur RÚV séu notaðar til að kæla umfjöllun þeirra. Langt er síðan ljóst varð að endurskoða þyrfti siðareglurnar. Úrskurðurinn sýnir að það þolir enga bið.

Siðareglur RÚV voru mjög umdeildar um leið og þær voru settar. Fjölmargir töldu að með ákvæði um samfélagsmiðla væri brotið gegn tjáningarfrelsi starfsmanna. Einnig hefur verið bent á að hægt væri að misnota siðareglurnar til að reyna að koma höggi á starfsmenn. Hvort tveggja hefur nú sannast. Gagnrýnin hefur ekki aðeins verið borin uppi af starfsmönnum RÚV heldur hefur hún einnig komið fram annars staðar, meðal annars í fræðilegum skrifum. Hér má meðal annars vísa til orða Páls Þórhallssonar, skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu. „Í siðareglum RÚV er reynt að draga þá línu að tilteknir starfsmenn megi ekki tjá sig um tiltekin efni. Þar virðist hins vegar gengið of langt.“

Samherji kærði ellefu einstaklinga í alls 45 liðum. Niðurstaða siðanefndar var að ummæli í fimm liðum sem sneru að einum fréttamanni teldust alvarlegt brot. Ekki er rökstutt með hvaða hætti siðanefnd kemst að þeirri niðurstöðu. Eigi störf siðanefndar að koma að gagni verður að liggja fyrir hvernig nefndin kemst að niðurstöðu. Þá röksemdafærslu vantar í úrskurðinn. Það vekur sérstaka undrun og vonbrigði að nefndin telji sig geta úrskurðað um alvarlegt brot án þess að rökstyðja niðurstöðu sína ítarlega, sérstaklega þar sem úrskurðað er um alvarlegt brot í fyrsta sinn.Stjórnendur Samherja hafa þegar notað niðurstöðu siðanefndar til að krefjast þess að viðkomandi fréttamaður, Helgi Seljan, fjalli ekki um málefni fyrirtækisins og að hann verði áminntur. Stjórnendur RÚV hafa sem betur fer borið gæfu til að segja að úrskurðurinn hafi ekki áhrif á störf hans. Stjórn Félags fréttamanna tekur fram að Helgi hefur ásamt samstarfsmönnum sínum, Aðalsteini Kjartanssyni og Stefáni Drengssyni, unnið þrekvirki í að fjalla um málefni Samherja og dótturfélaga þess og ásakanir um ólöglegt athæfi í starfsemi félaganna erlendis. Allur fréttaflutningur þeirra af málinu hefur byggst á þrotlausri og vandaðri vinnu og ítarlegum rannsóknum. Stjórnendur Samherja hafa kosið að svara ekki spurningum og koma skoðun sinni ekki á framfæri eins og þeim hefur ítrekað verið boðið að gera. Þess í stað hafa þeir birt áróðursmyndbönd og veffærslur þar sem veist er að þeim sem segja fréttirnar, einkum og sér í lagi Helga, með innstæðulausum ásökunum.

Stjórnin lýsir jafnframt undrun sinni á þeirri niðurstöðu nefndarinnar að ein ummælin feli í sér alvarlegt brot og beinist persónulega að fyrirsvarsmönnum Samherja þegar raunin er sú að þau ummæli tengdust Samherja ekki með neinum hætti heldur fjölluðu um málefni fyrirtækisins Eldum rétt.

Þetta er augljós og vandræðaleg staðreyndavilla í niðurstöðum siðanefndar sem „vill undirstrika mikilvægi þess að málsmeðferðin sé vönduð, enda séu hagsmunir þýðingarmiklir og viðkvæmir“. Jafnframt þar sem „[m]arkmið nefndarinnar er að leiða hið sanna og rétta í ljós í hverju máli og er þar ekki bundin af málsástæðum eða lagarökum aðila“. Nefndin undirstrikar fyrrnefnd ummæli sem hún segir til marks um að ummælin séu meðal þeirra sem hún gerir einkum athugasemdir við. Þessi niðurstaða er sérstaklega merkileg í ljósi þess að bæði í svörum Helga Seljan og lögmanns Samherja til nefndarinnar kom fram að ummælin snúast ekki um Samherja. Það vekur spurningar um hversu vel nefndin kynnti sér gögn málsins. Ekki er nóg með að villan sé augljós og vandræðaleg heldur hlýtur hún að kalla á endurskoðun úrskurðarins.

Sem fyrr segir tiltók lögmaður kæranda tugi ummæla á annars tugs starfsmanna í kæru sinni. Slíkt er þekkt í meiðyrðamálum þar sem stefnt er vegna fjölda ummæla í von um að einhver verði metin brotleg. Samherji kastaði stóru neti og veiddi eina siðanefnd.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: