- Advertisement -

FREKJUDÓS

Árni Gunnarsson fyrrrverandi fréttamaður og alþingismaður.

Í framhaldi af Klausturmálinu fór ég að rifja upp árin mín á Alþingi og hvort ég geymdi í kollinum minningar um orðfæri eða orðræðu á svipuðum nótum og þar kom fram. Ræddi þetta við gamlan þingfélaga. Það er fráleitt að nokkur orðræða af þessu tagi hafi átt sér stað. Það kom fyrir, að við töluðum um frekjudósir og bryðjur í hópi þingkvenna og frá konum heyrðust orð eins og karlpúngar og karlrembur. Enginn kippti sér upp við þessi orð, sem stundum féllu innan þings; á kaffistofu og þingflokksfundum. Ég man ekki eftir að umræðan yrði klámfengin eða meiðandi, en minni mitt er ekki óbrigðult.

Það kom hins vegar fyrir, að karlar tókust á með bölvi og ragni og fundu kynbræðrum sínum allt til foráttu.

Innan þingsins ríkti yfirleitt heldur hlýlegt andrúmsloft og eftir harðar snerrur í þingsal, settust menn niður yfir kaffibolla og ræddu mál í ró og næði. Umræðan í þingsal var kannski meira fyrir fjölmiðlana. Á þingi eignaðist ég marga góða vini og kunningja, karla og konur úr öllum flokkum . Svo er auðvitað um fleiri.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Umræðan í Klaustri hlýtur að koma að flestum fyrrverandi þingmönnum sem skrattinn úr sauðarleggnum, enda ríkti nokkur depurð í hópi þeirra, þegar þeir hittust daginn eftir að Klausturmálið varð opinbert, en þá komu þeir saman til að fagna fullveldisafmælinu dauðlegir menn, og blaka ekki vængjum eins og hvítir mávar. En ég hef aldrei þekkt neitt annað á langri ævi en að alþingismenn kynnu mannasiði.

Hitt er annað mál að það er ekki almennings eins að láta sér þetta blöskra, þetta mál snertir Alþingi og alþingismenn umfram allt. Eysteinn Jónsson, sem lengst allra manna var forystumaður í Framsóknarflokknum meðan sá flokkur mátti sín nokkurs, sagði í mín eyru og fleiri að það væri „pólitísk nauðsyn“ að alþingismenn kynnu þá list að láta sér blöskra. Hann sagði líka við sama tækifæri: „Allir alþingismenn eru samverkamenn. Við skulum varast það að gera pólitíska andstæðinga að persónulegum fjandmönnum okkar.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: