Það er mikið skrifað, með og á móti borgarlínu, í Mogga dagsins. Mest kemur á óvart að þar er forsíðuviðtal við Dag B. Eggertsson borgarstjóra. Eins er að finna grein eftir borgarstjórann fyrrverandi, Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, sem smellpassar við Miðflokkinn. Gamla íhaldið og Miðflokkurinn eru nánast eins. Nóg um það í bili.
Í Mogganum er grein eftir Sigurborgu Ósk Haraldsdóttur, Pírata í borgarstjórn og formann skipulagsráðs borgarinnar. Eðlilega er hún fylgjandi borgarlínunni. Hún er gagnrýnin á þá sem eru ekki sammála. Ekki síst Davíð Oddsson. Sigurborg Ósk minnist einnig fyrrum ráðanda í New York. Í grein Sigurborgar segir:
„Áratugir þar sem mönnum líkt og Davíð Oddssyni og Robert Moses fannst sjálfsagt að fórna öllu fyrir hraðbrautir eru í dag hluti af fortíðinni. Þetta eru áratugir þar sem frekir karlar og ómanneskjuleg verkfræði sköpuðu í sameiningu það bílaumhverfi sem einkennir margar vestrænar borgir. Öllu skyldi fórna fyrir einkabílinn, hvort sem um var að ræða fátækrahverfi í New York eða Fossvogsdalinn í Reykjavík.
Í dag er Davíð Oddsson kominn upp í Hádegismóa og Robert Moses undir græna torfu. Í dag er Reykjavík að byggja húsnæði fyrir heimilislaust fólk, að vernda græn svæði og fækka einkabílum. Minnka umferðarhraða og forgangsraða gangandi fyrst. Skapa hægan púls með minni mengun og meira af gróðri þar sem þú nýtur tilverunnar, hvort sem þú ert á leiðinni til vinnu eða að hitta vinkonu.“