- Advertisement -

Framúrkeyrsla Steingríms jafn há og rekstur lýðháskóla kostar í eitt ár

- skólinn betri en byggðakvóti sem í raun framfylgir núverandi ástandi, segir Arna Lára Jónsdóttir.

Arna Lára Jónsdóttir: „Þetta á eftir að hafa miklu meiri áhrif á samfélagið en t.d. aðgerðir eins og byggðakvóti sem er í raun bara til þess að framlengja núverandi ástand.“

„Svo við setjum hlutina í samhengi þá kostar jafn mikið að reka Lýðháskólann á Flateyri í heilt ár og nemur framúrkeyrslu vegna hátíðarfundar Alþingis í sumar, 40 milljónir,“ sagði varaþingmaður Samfylkingarinnar, Arna Lára Jónsdóttir.

Gott og vel, en hver er þýðing Lýðháskólans fyrir Flateyri?

„Þetta verkefni er að fara að breyta Flateyri og er liður í því að finna nýja undirstöðu fyrir byggðina sem ekki er vanþörf á eftir að stoðunum var kippt undan byggðinni árið 2007 þegar 3.000 tonna kvóti var seldur í burtu frá þorpinu. Verkefni af þessu tagi eiga eftir að breyta þorpum eins og Flateyri til lengri tíma. Þetta á eftir að hafa miklu meiri áhrif á samfélagið en t.d. aðgerðir eins og byggðakvóti sem er í raun bara til þess að framlengja núverandi ástand.“ „Þetta verkefni er ekki einungis mikilvægt fyrir nemendur skólans, eins og ég sagði áðan, heldur er um að ræða risastórt samfélagslegt verkefni. Íbúum fjölgar um 20–30%. Ungu fólki, sem vantar inn í samfélagið, fjölgar. Það fjölgar í leikskólanum. Það fjölgar í grunnskólanum. Önnur þjónusta í byggðarlaginu mun styrkjast, eins og matvöruverslun,“ sagði Arna Lára.

Frá Flateyri.

En er reksturinn tryggður?

„Lýðháskólinn á Flateyri er nánast fullfjármagnaður í ár með frjálsum framlögum einstaklinga, stofnana og fyrirtækja, en það þarf um 40 milljónir á ári til þess að reka skólann. Mikil óvissa er um fjármögnun lýðháskólans á næsta ári og til framtíðar. Fjárlög voru lögð fram í síðustu viku og ekki verður séð að gert sé ráð fyrir krónu í lýðháskólann, sem er miður. Ég vona svo innilega að það breytist í meðförum þingsins. Ég treysti á að fjárlaganefnd taki á þessu máli.“

Byggt á þingræðu Örnu Láru.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: