- Advertisement -

Framtöl liggja frammi eins og gömul Séð & Heyrt blöð á biðstofum

Framtal einstaklinga liggur frammi, rétt eins og gömul Séð & Heyrt blöð á biðstofum

Nekt í faðmi lögreglumanna, framtals öfundin og útlendingalögin er meðal efnis þessa vikuna.

Ég verð að viðurkenna að ef ég hefði misst meðvitund vegna vímuefna í ljósabekk og rankað við mér með lögregluþjóna standandi yfir mér, hefði ég hugsað eitthvað annað en að kæra. Já núna hugsa einhverjir að ég sé að hugsa eitthvað klúrt vegna samkynhneigðar en svo er ekki. Íslenska ríkið var sýknað af kæru stúlku sem rankaði við sér úr vímunni og varð að klæða sig fyrir framan lagana verði. Ég hefði skammast mín, dröslast í flíkurnar, komið mér út aldrei farið aftur á sólbaðsstofuna og vonað að ég ætti ekki eftir að rekast á lögreglumennina aftur. Sumir bara kunna ekki að skammast sín.

Nú þurfum við að setjast niður og endurskoða útlendingalög, þátttöku okkar í sáttmálum og framvegis. Í landinu eru erfiðir hælisleitendur sem hafa að hluta til gist í Reykjanesbæ við litla hrifningu íbúa. Áreiti í strætó og í sundi, búðaþjófnaður og fleira sem þessir einstaklingar tengjast og nú síðast hafði sérsveitin afskipti af hælisleitenda á Kjalarnesi. Sumir vilja ekki vera hérna og hafa reynt að smygla sér um borð í flutningaskip, en við höldum sem fastast í þessa einstaklinga. Á sama tíma erum við að stíja í sundur fjölskyldur. Í síðustu viku var karlmaður rifinn úr faðmi fjölskyldu sinnar, konu og tveggja barna og sendur úr landi. Í þessari viku var karlmanni sem giftur er íslenskri konu og á með henni tvö börn, hafnað um ríkisborgararétt. Ástæðan var að hann var tekinn fyrir of hraðan akstur. Þetta kerfi er ekki að ganga upp og tímabært að fá heildarsýn á málið með mannúð að leiðarljósi, þetta er orðið hálf kjánalegt fyrir orðstýr landsins út á við. Að veita ekki giftum einstaklingi sem búið hefur hérna í 11 ár ríkisborgararétt vegna hraðasektar er efni í grín í bandarískum grínþætti, hvað þá þegar hraðasektirnar tilheyra maka þínum.

Ég verð að fara að stunda landsleikina, það eru ennþá nokkrir kroppar á lausu og þeir elstu byrjaðir að detta inn á markaðinn aftur. Það er algjör óþarfi að skila þeim þegar þeir detta út úr hópnum. Ég sé það að ég hefði átt að nema íþróttasálfræði.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Annars er búið að vera frekar rólegt þessa vikuna, hálfgerð gúrkutíð, svo rólegt að birt var frétt um einhverja unga konu sem er með 15.000 fylgjendur á instagram. Sá ekki tilganginn í þeirri frétt, enda með þeim lélegri sem ég sá. Svo til að toppa daufleikann í fréttamennskunni var fjallað um það í kvöldfréttum Stöðvar 2 að viðskiptajöfrar landsins búa einna helst í Garðabæ eða á Seltjarnanesi. Þurfti virkilega að rannsaka málið eitthvað sérstaklega? Án efa voru einhverjir á ríkisstyrk að rannsaka bú eftir efnahag. Vitið þið til þess að mikið af efnameira fólki búi í Fellunum? Ég þekki engan ríkan í Fellunum þótt ég þekki þar mikið af góðu fólki. Það eru engin vísindi að hverfin endurspegla með einhverjum hætti efnahang íbúanna.

Framtalsseðlarnir streymdu til landsmanna í vikunni. Margir brostu út að eyrum, en aðrir ekki. Það sem kemur mér alltaf spánskt fyrir sjónir, er að oftar en ekki lenda þeir sem minnst eiga á milli handanna í að endurgreiða. Hvernig stendur á því þunglamalega bótakerfi sem öryrkjar og ellilífeyrisþegar búa við, og lenda margir hverjir í að skulda – bæturnar eru vart að duga fyrir salti í grautinn, en alltaf tekst ríkinu að kroppa til baka. Annað sem fer fyrir brjóstið á mér og það er að framtal einstaklinga liggi frammi, rétt eins og gömul Séð & Heyrt blöð á biðstofum. Það ríkir launaleynd í landinu og persónuvernd. Pétur heitinn Blöndal þingmaður kom vel að orði þegar hann sagði að tekjurnar skipta engu máli, það eru skuldirnar. Þetta er laukrétt hjá honum því tekjur verða að duga fyrir skuldum og lífsviðurværinu. Þótt nágranninn þinn sé með 2 milljónir á mánuði og þú ert grænn úr öfund þá er ekki þar með sagt að hann sé með meira fé á milli handanna. Við erum skrítin á mörgum sviðum og þetta er ein hliðin, ölum á öfund og bölsýni yfir launum annarra í stað þess að standa okkur vel og gera það besta úr því sem við höfum, við græðum ekkert á að velta okkur upp úr tekjum annarra.

Góða helgi,

Árni Árnason.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: