Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, verðandi dómsmálaráðherra, átti fína spretti á þinginu þegar hún, sem formaður utanríkismálanefndar, atti kappi við alla karlana í Miðflokknum. Tefldi fjöltefli og vann á öllu borðum. Hverju og einasta.
Hún geri betur. Glímdi einnig við Davíð Oddsson. Miðjan skrifaði frétt um framgöngu hennar. Þetta segir þar um framgönguna gegn Davíð og hans félögum:
„Framtíðin bankar á dyrnar, burt séð frá því hversu margir vilja berjast gegn henni, og Ísland mun halda áfram að breytast, verða frjálsara, betra og hagsælla en það var í gær. Við stoppum ekki framþróun en við höfum alla burði til að taka þátt í henni. Sjálfstæðisflokkurinn mun sem fyrr vera þar í forystu.“
„Það verða alltaf til stjórnmálamenn sem vilja nota óttann og búa þannig til ímyndaðan óvin til að beina í einhvern farveg óttanum sem þeir hafa sjálfir skapað. Þeir trúa því að ef við bara pökkum í vörn, stingum hausnum í sandinn og rétt lítum upp til að borða bara íslenskt muni okkur farnast vel,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir á Alþingi í lok maí, í orkupakkamálinu.
Svo setti hún fjórhjóladrifið:
„Jaðarflokkar eru alltaf með einfaldar lausnir á vandamálunum sem þeir sjálfir hafa búið til og þannig flokkar og þannig stjórnmálamenn sem virðast telja það hápunkt stjórnmálastarfsins að þvæla og segja ósatt, rægja og rífa svo kjaft hafa það stundum fram yfir aðra að skammbúinn einfaldleiki lýðskrumsins getur verið heillandi fyrir einhverja. Hin svokölluðu hefðbundnu stjórnmál hljóma þá þæfð og þreytt í samanburðinum en það stendur þá á okkur hér að tala skýrt og taka stjórnina en ekki taka undir eða lúta í lægra haldi fyrir lýðskruminu.“
Hér er ekkert mjálm. Áslaug Arna er eflaust besti kostur Sjálfstæðisflokksins í embættið. Hvað sem hverju og einu okkar kann að þykja um pólitíkina hennar.