- Advertisement -

Framsókn fór út af í beygjunni

- söguleg átök um fólk og stjórnmálastefnu eru við það að kljúfa Framsóknarflokkinn.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson:
„Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem hefur markað sér skýra stefnu fyrir aðildarviðræður við Evrópusambandið og skilgreint samningsmarkið þeirra viðræðna.“

Nú þegar Framsóknarflokkurinn kvelst af innanmeini er rétt að rifja upp að á flokksþinginu 2009, þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var kjörinn formaður, var Framsóknarflokkurinn á allt annarri vegferð en nú og síðustu ár.

Það fólk sem nú tekst á um flokkinn var flest allt á því flokksþinginu, flokksþinginu sem samþykkti að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

„Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem hefur markað sér skýra stefnu fyrir aðildarviðræður við Evrópusambandið og skilgreint samningsmarkið þeirra viðræðna. Framsókn hefur sett það sem skilyrði fyrir aðild að fullveldi og óskorað forræði yfir auðlindum þjóðarinnar verði grundvallarkrafa í þeim viðræðum, auk skilyrða sem lúta m.a. að hagsmunum landbúnaðar og sjávarútvegs. Fordæmi eru fyrir slíku í samningum annarra þjóða við Evrópusambandið og því algerlega rangt að halda því fram að þessar kröfur hamli því að af aðildarsamningi geti orðið,“ segir í bréfi sem nýkjörin formaður Framsóknarflokksins skrifaði undir á árinu 2009, það er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Bréfið var sent út fyrir ekki svo mörgum árum. Miðað við það sem nú er að gerast má ímynda sér að sú krappa beygja sem var tekin, frá Evrópusinnuðum flokki árið 2009, til dagsins í dag, þar sem barátta gegn Evrópusambandsaðild er eitt helsta einkenni Framsóknarflokksins í dag, skilji eftir sig spor, jafnvel sár.

Að loknu flokksþinginu, það ár, var frétt um ályktun Framsóknar um að Ísland eigi að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið hafi verið samþykkt með miklum meirihluta atkvæða á flokksþingi Framsóknarflokksins. Áður hafði verið hafnað tillögu um að flokksþingið leggist eindregið gegn öllum hugmyndum um að Ísland gangi í Evrópusambandið.

Halldór Ásgrímsson:
„Ég spái því reyndar að við verðum orðnir aðilar að Evrópusambandinu árið 2015.“

 Halldór vildi ESB

Ef við lítum ögn lengra til baka fer ekki á milli mála að Framsóknarflokkurinn var með mjög ákveðna afstöðu til Evrópusambandsins, flokkurinn stefndi þangað. Það var ekki síst undir forystu Halldórs Ásgrímssonar sem flokkurinn sigldi hraðbyri til austurs, til Evrópu. Hann var kappsamur í málinu og lét sitt ekki eftir liggja. Þegar Halldór var forsætisráðherra steig hann í pontu á ársfundi Viðskiptráðs og gerðist spámaður. Lesum hluta af ræðu þáverandi forsætisráðherra:

„Ég spái því reyndar að við verðum orðnir aðilar að Evrópusambandinu árið 2015. Ég tel að það sem verði einkum ráðandi í umræðu um það á næstunni sé framtíð og stærð evrópskra myntbandalagsins. Ákvarðanir Dana, Svía og Breta hafa þar veruleg áhrif. Það eru hins vegar engar pólitískar forsendur fyrir ákvörðun nú af okkar hálfu. Til þess er umræðan ekki nægilega þroskuð. Forsenda þess að málið þroskist betur er að atvinnulífið láti það til sín taka með mun virkari hætti. Ég hef alltaf undrast litla umræðu atvinnulífsins um Evrópumálin. Launþegahreyfingin hefur einhverra hluta vegna staðið fyrir meiri umræðu. Hvað veldur veit ég ekki. Hitt finnst mér augljóst að því verður ekki frestað lengi, hvorki í atvinnulífinu né á vettvangi stjórnmálanna. Það á ef til vill við í þessu máli líkt og í flestum öðrum stórum málum að þótt við vitum hvað verður þá sé það ekki líklegt til vinsælda. Óttinn við að rugga bátnum sé of mikill. Þegar ekkert kallar á skjóta niðurstöðu og vel gengur er oft þægilegra að fresta því.“

Og nú logar flokkurinn

Það hefur mikið hefur gengið á í Framsóknarflokknum, allt frá því að hann var Evrópusambandssinnaður flokkur og til dagsins í dag. Víst er að auk skoðanaágreinings er tekist á um persónur innan flokksins. Hvað sem fylkingu Sigmundar Davíðs þykir er vitað að innan flokksins, og innan þingflokksins, er fólk sem hefur ekki tekið hann í sátt eftir Wintrismálið og framgöngu hans í því máli. Ekki síst viðbrögð hans í framhaldi af Kastljósþættinum.

Eins er vitað að í fylkingu Sigmundar Davíðs er fólk sem getur ekki og ætlar ekki að fyrirgefa Sigurði Inga Jóhannssyni, núverandi formanni, að hann hafi farið í formannsframboð gegn Sigmundi Davíð.

Nú er sem allar leiðir séu lokaðar. Öldurót Framsóknar er mikið. Auðvitað vakti undrun margra sú mikla kúvending sem varð á pólitískri stefnu og sýn Framsóknarflokksins eftir samþykkt um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Nú eru sárin opin. Trúlega klofnar öldungur íslenskra stjórnmála.

Sigurjón M. Egilsson.

 

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: