Stjórnmál „Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, kallar eftir skýrari svörum frá Sjálfstæðisflokknum, um hvað það er sem flokkurinn vill ná í gegn í ríkisstjórnarsamstarfinu þegar kemur að orkumálum, sem ekki er að nást í gegn nú þegar. Hún telur ríkisstjórnarflokkanna hafa viljann og getuna til þess að bregðast við, svo framarlega sem það liggur skýrt fyrir hvað það er sem þarf að gera.“
Þetta er bein tilvitnun í frétt á mbl.is. Það er þingflokksformaðurinn Ingibjörg Isaksen sem talar.
Loks heyrðist í Framsókn vegna endurtekinna yfirlýsinga úr þingliði Sjálfstæðisflokks um að nauðsyn sé að mynda nýjan þingmeirihluta vegna virkjanna.
„Það er afar mikilvægt að það komi fram að frá því að við byrjuðum á þingi, þetta kjörtímabil, að þá hef ég ekki séð eitt mál, sem tengist orkumálum, sem ekki hefur verið samþykkt í ríkisstjórnarflokkunum þremur,“ segir Ingibjörg þegar blaðamaður leitar viðbragða við ákalli Jóns Gunnarssonar, þingmanns.
Ingibjörg kallar eftir því að Sjálfstæðisflokkurinn, sem fer með málaflokkinn, sé skýrari í sínum málflutningi varðandi hvað það er sem flokkurinn vill ná fram í orkumálum. Jafnframt að flokkurinn leggi það fram til þess að hægt sé að taka afstöðu til þess.
„Ég sé ekki alveg hvar núningurinn er, allavega á þessu kjörtímabili, ég get ekki talað fyrir fyrri kjörtímabil þar sem ég var ekki á þingi þá, en það sem hann [Jón] er að benda á núna eru ekki nýjar fréttir. Á þetta hefur lengi verið bent og við í framsókn höfum kallað eftir upplýsingum og áformum.“
„Ég tel að við höfum viljann til þess og getuna, svo framarlega sem að það liggur fyrir hversu mikillar orku þurfi að afla og aðgerðaráætlun til að ná því fram. Það er kjarni málsins.“