Fréttaskýring eftir Gunnar Smára:
Þótt könnun Gallup fyrir júnímánuð nái að litlu leyti að grípa hneykslun almennings vegna skýrslu fjármálaeftirlitsins um sölu Íslandsbanka á eigin bréfum, sést af henni hversu ömurleg áhrif stjórnarsetan með Sjálfstæðisflokknum hefur haft á Framsóknarflokkinn og Vg. Könnun Gallup er aðeins að 1/4 tekin eftir að skýrsla fjármálaeftirlitsins var birt. Eftir sem áður má sjá að Íslandsbankamálið hefur kostað Framsókn og Vg helminginn af því fylgi sem flokkarnir fengu í síðustu kosningum.
Hér má sjá samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna og traust á ríkisstjórnin samkvæmt Gallup, frá kosningum að júníkönnuninni:
Þarna sést að seinna útboðið í Íslandsbanka var vendipunkturinn. Milli mánaða féll traust á ríkisstjórninni úr 60,9% í 47,4%, fór í fyrsta sinn undir 50%. Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna féll minna, úr 52,1% í 45,5%, en hefur síðan elt minnkandi traust á ríkisstjórninni. Það var þetta mál sem setti ríkisstjórnina í vörn, sem hún hefur ekki kunnað að spila úr, vön óeðlilegum meðbyr og trausti frá cóvidárunum.
Fylgi Vg var byrjað að dala áður en fréttirnar af útboðinu bárust fyrir rúmu ári, fréttir sem sannfærðu almenning um spillinguna að baki sölunni. En síðan hefur fylgistapið tvöfaldast. En fylgishrun Framsóknar byrjar við fréttirnar fyrir rúmu ári og hefur síðan verið jafnt og þétt. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki minnkað að ráði við Íslandsbankamálið, enda er það rekið samkvæmt landsfundarsamþykktum flokksins og undir stjórn formanns flokksins. En málið kemur í veg fyrir að flokkurinn geti vaxið.
Könnun Gallup sýnir fylgi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er það sama upp á gramm og í maí. Það sama mátti sjá í könnun Maskínu, sem birt var í síðustu viku. Hið magnaða ris Samfylkingarinnar virðist hafa náð toppi, það eru allir mættir um borð sem á annað borð geta hugsað sér að kjósa Samfylkinguna.
Það eina sem breytist milli mánaða er að það má sjá örlítið ris hjá Miðflokknum. Það kann að stafa að auknum áherslum Sjálfstæðisflokksins á flóttamannamál, þar sem forystan boðar harðari aðgerðir. Þær hljóma ekki trúverðugar þar sem flokkurinn hefur farið með þessi mál nær linnulaust síðust þrjá áratugina. Það má því vera að þessi umræða ýti frekar undir fylgi Miðflokksins, sem hefur haldið á lofti sömu stefnu og forysta Sjálfstæðisflokksins boðar nú en hefur ekki á sama tíma borið ábyrgð á málaflokknum.
Þessi könnun dregur líka fram annað áhugavert samspil milli fylgis og umræðu. Fyrir fram hefðu líklega flestir spáð því að fylgi Viðreisnar myndi lyftast þegar Samfylkingin yfirgaf Evrópumálin. Það hefur ekki gerst. Og það vekur upp spurningar: Var Evrópumálið aldrei stórt mál? Eða: Er Viðreisn í svo miklum vanda að jafnvel þessi gjöf frá Samfylkingunni dugar flokknum ekki til aukins fylgis?
Að öðru leyti er lítið að frétta. Það mun koma fram í næstu könnun Gallup hvort og hvaða áhrif úttekt fjármálaeftirlitsins hefur á fylgi flokkanna. Sú könnun verður gerð um hásumar, þegar margir eru á faraldsfæti og fæstir að ræða pólitík. Það verður því kannski ekki fyrr en um miðjan ágúst að við fáum könnun sem sýnir hver staðan í pólitíkinni er fyrir veturinn. Sem án nokkurs vafa verður mikill átakavetur í pólitíkinni.
Niðurstöður könnunar voru þessar í tölum (innan sviga er breyting frá kosningum):
Ríkisstjórn:Sjálfstæðisflokkur: 20,8% (-3,6 prósentur)Framsóknarflokkur: 8,7% (-8,6 prósentur)Vg: 6,2% (-6,4 prósentur)Ríkisstjórn alls: 35,7% (-18,6 prósentur)
Hin svokallaða frjálslynda miðja:Samfylkingin: 28,4% (+18,5 prósentur)Píratar: 9,7% (+1,1 prósentur)Viðreisn: 8,1% (-0,2 prósentur)Hin svokallaða frjálslynda miðja: 46,2% (+19,4 prósentur)
Ný-hægri andstaðan:Miðflokkurinn: 7,8% (+2,4 prósentur)Flokkur fólksins: 5,7% (-3,1 prósentur)Ný-hægri andstaðan: 13,5% (-0,7 prósentur)
Stjórnarandstaða utan þings:Sósíalistaflokkurinn: 4,6% (+0,5 prósentur)
Þessu má líka stilla upp svona:
Flokkar sem bætt hafa við sig frá kosningum:Samfylkingin: +18,5 prósenturMiðflokkur: +2,4 prósentur
Flokkar sem standa í stað frá kosningum:Píratar: +1,1 prósenturSósíalistar: +0,5 prósenturViðreisn: -0,2 prósentur
Flokkar sem hafa tapað fylgi:Flokkur fólksins: -3,1 prósenturSjálfstæðisflokkurinn: -3,6 prósenturVg: -6,2 prósenturFramsókn: 8,7 prósentur
Könnunin var gerð dagana 1. júní til 2. júlí. Heildarúrtak var rúmlega 11.300 og tók tæpur helmingur tók afstöðu.