Ríkisstjórnin fékk á kjammann í gær þegar Samtök iðnaðarins birti hversu stórkostlega ríkisvaldið hefur kosið að láta allt og allt drabbast niður. Verst hefur verið farið með vegakerfið.
Er það rétt? Fékk ríkisstjórnin á kjammann? Eða fagnar þar hver einasti ráðherra? Er leikflétta kannski að ganga upp?
Eina leiðin sem samgönguráðherrann sér út úr veseninu er að einkavæða vegina og skattleggja enn frekar. „Nýtum við þar öll trixin í bókinni,“ skrifar Sigurður Ingi Jóhannsson í Mogga dagsins. „…ásamt möguleika á að nýta sértæka gjaldtöku til enn frekari framfara,“ segir í ráðherrans boðskap.
„Tveimur samgönguáætlunum og einu fjárfestingarátaki síðar fullyrði ég að staðan nú er allt önnur og betri. Það besta er að við erum rétt að byrja. Á næstu árum höfum við lagt grunn að miklum uppbyggingaráformum um allt land,“ skrifar formaður Framsóknarflokksins og lofar langt inn í framtíðina. Eins og flokkur hans gerði í eina tíð. „Fíkniefnalaust Ísland árið 2000.“
Bjari Benediktsson hlýtur að vera himinlifandi með hversu léttur Sigurður Ingi er í taumi.
Varaformaður Framsóknarflokksins, Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra, lofaði svo í gær að staða drengja í skólum landsins yrði orðin fín árið 2030.
-sme