Stjórnmál „Stjórnvöld þurfa að vinna í sömu átt til þess að sem flestir geti átt jafnan aðgang að hollu mataræði og liðið vel í eigin líkama. Til þess þarf að huga að lýðheilsumarkmiðum þegar stefnan er mörkuð. Ég mun beita mér fyrir því,“ skrifar Haraldur Einarsson, þingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi, um áform Bjarna Benediktssonar um afnám sykurskattsins og hækkun matarskattsins.
Haraldur skipar sér þar með á bekk með flokkssystkinum sínum sem hafa lýst yfir andstöðu við áform Bjarna Benediktssonar. Áður hafa þingflokksformaðurinn, Sigrún Magnúsdóttir stigið fram og talað fyrir sína hönd og margra annarra, Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, og Karl Garðarsson þingmaður í Reykjavík.
Hver er afstaða forsætisráðherra?
Nú mun reyna á hver afstaða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra er, en gera má ráð fyrir að hann og fjármálaráðherra séu samstíga í málinu. Hann á þá eftir að sannfæra þingmenn sína og fá þá til stuðnings við áformin.
Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra hefur sagst vera sammála einfaldara virðisaukaskattskerfi og endurskoðun löggjafar á heildstæðan máta. „En þær breytingar mega ekki bitna á þeim sem lægstar tekjur hafa. Hægt er að komast hjá því með ýmsum mótvægisaðgerðum, svo sem hækkun persónuafsláttarins, auknum húsnæðisstuðningi og hækkun barnabóta. Í mínum huga eru þess háttar mótvægisaðgerðir forsenda einföldunar á virðisaukaskattskerfinu. Einföldun skattkerfisins má ekki koma niður á þeim sem minnst hafa.“ Þarna talar hún í sömu átt og Bjarni Benediktsson gerði í þættinum Sprengisandur á sunnudaginn síðasta, þegar þetta mál kom fyrst í umræðuna.
Málsmetandi Framsóknarmenn hafa því talað í sitthvora áttina í málinu og reiknað er með að afstaða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sé ámóta afstöðu Bjarna og Eyglóar, einsog áður var getið um.
Lýðheilsa og stjórnarsáttmálinn
Haraldur Einarsson, sá nýjasti í andstöðuhópi Framsóknar, færir nokkur rök fyrir afstöðu sinni og bendir meðal annars á áform í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar og skrifar.
„Á sama tíma og ljóst er að markvissari verðlagningaraðgerðir þyrfti til að draga úr sykurneyslu í miklum mæli er hugsunin á bak við sykurskattinn í rétta átt. Markmiðið er gott en spyrja má hvort skatturinn hefur náð tilsettum árangri? Hærra verð á sælgæti og gosi heldur mér a.m.k. svolítið fjær því að velja þær vörur en annars væri.
Það er ekki einungis jákvætt heldur nauðsynlegt að stefna að betri árangri í lýðheilsumálum og í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er bætt lýðheilsa og forvarnarstarf sett meðal forgangsverkefna. Með markvissum aðgerðum á því sviði má draga úr kostnaði fyrir samfélagið til framtíðar og í raun ættu lýðheilsumarkmið að vera þáttur í öllum stefnum stjórnvalda. Aðgerðir til að draga úr sykurneyslu eru þar mikilvægar og sterkasta forvarnaraðgerðin á færi stjórnvalda í því samhengi er markviss lagasetning.
Umræða um hækkun virðisaukaskatts á matvæli tengist einnig inn í lýðheilsuumræðuna, þar sem varast verður að matarkarfan hækki almennt í verði á meðan sykur og sykurvörur lækka hlutfallslega á móti. Hættan á því að sykraðar matvörur verði algengari í matarkörfunni vegna verðlags er raunveruleg og með henni eykst hætta á lífsstílstengdum sjúkdómum sem getur leitt til aukins kostnaðar fyrir samfélagið til lengri tíma litið.“