Viðhorf „Það að Framsóknarflokkurinn skuli, örfáum dögum fyrir kosningar, hoppa á vagn mjög ógnvænlegrar bylgju sem virðist vera að breiðast yfir Evrópu, í þeim tilgangi að afla sér vinsælda meðal afmarkaðs hóps á kostnað annarra finnst mér vera til marks um að Framsóknarflokkurinn eigi ekki erindi í íslenska pólitík.“
„Það er með ólíkindum hvað menn leggjast sumir lágt í tilraunum til að koma höggi á pólitíska andstæðinga. Þegar menn seilast svo langt að saka heilu hópana um kynþáttaníð að ósekju þá er það ekki bara alvarlegt mál fyrir þá sem fyrir því verða heldur fyrir samfélagið allt. Með því að misbeita slíkum ásökunum er verið að draga úr þeim mikilvæga þunga sem þarf að liggja að baki baráttu gegn kynþáttahyggju.“
Já, það er mikill munur á þessum tilvitnunum hér að ofan. Sú fyrri eru orð Sóleyjar Tómasdóttur, borgarfulltrúa Vinstri grænna og síðar er úr grein sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, skrifaði.
Fátt er meira til umfjöllunar í íslenskum stjórnmálum en afstaða frambjóðenda Framsóknarflokksins í Reykjaví, fyrst vegna fyrirhugaðrar moskubyggingar og nú vegna lóðaúthlutunar til hinna ýmsu trúfélaga.
Guðrún Bryndís Karlsdóttir, sem var í öðru sæti á upphaflega framboðslista flokksins í Reykjavik, segir í grein sem birtist í Kvennablaðinu, að fyrsta eldfima fjölmiðlaumfjöllun framboðs Framsóknar hafi verið í byrjun febrúar eftir fund frambjóðenda allra flokka í Stúdentakjallaranum. „Óskar Bergsson oddviti Framsóknar lýsti því þá yfir að hann væri uggandi yfir stöðu kristinnar trúar í grunnskólum borgarinnar og að hann hefði gagnrýnt þau ummæli Jóns Gnarr að Jesú hafi hugsanlega verið hommi. Ég var á þessum fundi í Stúdentakjallaranum, sat aftast og sá hvernig stemning stúdenta breyttist, fólki var greinilega brugðið vegna afstöðu oddvitans. Yfir málflutningi Óskars var klerklegur blær. Það hefur oft meiri áhrif hvernig orð eru sögð en hver þau eru.“
Á brattann að sækja
Starfs míns vegna hef ég hitt marga frambjóðendur, úr öllum flokku, og ekki fer á milli mála að flestir hafa ímugust á aðferðum Framsóknarflokksins. Frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins sagði að í þeirra hópi hafi þetta verið rætt og allir verið á einu máli um að betra sé að fá ekkert atkvæði en fá þau á þeim forsendum sem Framsókn gerir.
Ekki er minnsti á vafi á.ef Framsókn nær að fá borgarfulltrúa í kosningunum á morgun, að sá verður utangarðs í hópi þeirra fimmtán sem skipa borgarstjórn. „Nema þurfi að nota hann í pólitískutafli,“ sagði einn af viðmælendunum. „Þannig var með Óskar Bergsson og Ólaf F. Magnússon.“
En aftur að moskunni og afstöðu Framsóknarmanna. Eru þeir öfagmenn?
„Það er svosem ekkert nýtt að andstæðingar framsóknarmanna (og á stundum annarra flokka) reyni að setja samasemmerki milli þjóðrækni og öfgahreyfinga. Hugsanlega vita þeir ekki að þjóðrækni spratt ekki hvað síst af frjálslyndishreyfingunni sem lagði áherslu á frelsi þjóða og mikilvægi menningararfs,“ segir Sigmundur Davíð líka í grein sinni.
„Ég geri mér ekki grein fyrir hvort þetta er tilviljun eða ekki.,“ sagði Björn Blöndal í Bjatri framtíð og hann vonaðist til að Framsóknarflokkurinn muni sjá að sér. „Og reyni að krafla sig út úr þessu, ég vona það.“
Hafði ekki hugsað um þetta
Guðfinna J. Guðmundsdóttir, sem skipar annað sæti Framsóknar í Reykjavík, var spurð í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í gær, hvort hún hefði verið búin að hugsa þessi mál áður en hún fór í framboð.
„Nei, veistu að ég hafði bara ekki velt þessu neitt fyrir mér. Ég var ekkert að velta þessu fyrir mér. Ég verð að viðurkenna það.“
En þetta reynir á flokkinn.
„Já, ég held að þetta sé erfitt mál fyrir alla og það séu skiptar skoðanir um að í þjóðfélaginu öllu. Ég held að þetta sé eitt af þeim málum sem við þurfum að ræða, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Við höfum verið að hitta fólk og þetta brennur á fólki. Ég viðurkenni að ég áttaði mig ekki á því áður en ég fór útí kosningabaráttuna, en það er ekki nema mánuður síðan ég ákvað að fara í framboð. Það kom mér á óvart hvað þetta brennur á fólki,“ sagði Guðfinna.
„Við viljum líka rökræða hluti og leyfa umræðu. Eðlileg niðurstaða er þá alltaf sú að allir séu fæddir jafnréttháir enda endurspeglast það í stefnu flokksins. Frá upphafi hefur Framsóknarflokkurinn verið í fararbroddi í eflingu almannahags og mannréttinda. Það er sama til hvaða hóps er litið, einkum ef litið er til þeirra sem hafa átt undir högg að sækja eða hafa þurft að berjast fyrir jöfnum réttindum, hvað eftir annað hefur Framsókn staðið fyrir úrbótum sem markað hafa tímamót,“ skrifar formaður Framsóknarflokksins.
Og vitnum ögn meira til orða forsætisráðherra: „Það eru ekki frjálslyndir menn sem grípa til þess ráðs að ráðast á pólitíska andstæðinga með því að gera þeim upp þær skoðanir sem verstar þykja. Þeir sem ganga fram með þeim hætti bera litla virðingu fyrir staðreyndum. Oft á tíðum er það vegna þess að þeir hafa sjálfir svo lítið fram að færa að þeir þurfa að búa sér til andstæðing til að réttlæta sjálfa sig. En þetta fólk leggur ekki í hvaða andstæðing sem er, það er ekki burðugra en svo að reynt er að festa á andstæðinginn stærsta skotmark sem völ er á.“
Átakalínurnar kristallast í þessu; byrjum á Sigmundi Davíð: „…reynt er að festa á andstæðinginn stærsta skotmark sem völ er á.“ Og svo er það Sóley Tómasdóttir: „…finnst mér vera til marks um að Framsóknarflokkurinn eigi ekki erindi í íslenska pólitík.“
Er athyglin góð?
Sumir hverjir segja Framsóknarflokkinn vera bestan flokka í að vekja á sér athygli, beina kastljósinu að sér, samanber skuldamálin í fyrra og moskumálið núna.
„Við virðumst vera betri í að vekja á okkur athygli,“ sagði Guðfinna J. Guðmundsdóttir.