Ungir Framsóknarmenn og Guðfinna J. Guðmundsdóttir borgarfulltrúi brugðust fljótt við orðum oddvita flokksins í Reykjavík, um sokkinn kostnað vegna kennslu flóttabarna. Nú hefur formaður flokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson, bæst í hópinn og sagt að Sveinbjörg Birna tali þvert á samþykkta stefnu Framsóknar.
Óðum styttist til borgarstjórnarkosninga og talið er að Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Guðfinna J. Guðmundsdóttir verði áfram saman í forystu Framsóknar við kosningarnar.
Framsóknarfólk virðist því leggja áherslu á að fjarlægast sem mest skoðanir Sveinbjargar Birnu.
Fyrir eru átök í Framsóknarflokki vegna ósættis þeirra Sigurðar Inga og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Níu bætast við opinber átök innan tveggja manna borgarstjórnarflokks Framsóknar.
Flokksþing verður í janúar.
Hér eru tvær tilvitnanir í Sveinbjörgu Birnu úr viðtalinu á Útvarpi Sögu:
„En þegar þau eru sett inn í bekki vegna þess að við erum með stefnu skóla án aðgreiningar, að þá verður mjög mikill fókus af þessum hópi inni í bekknum sem þarf stuðning, mjög margir sem eru á einhverfurófi, eru með athyglisbrest eða þurfa sérstaka aðstoð í námi sem að fá hana kannski ekki vegna þess að fókusinn er á öðru. Þess vegna hefur þeirri hugmynd skotið upp hvort það sé eðlilegt að það sé bara sérskóli stofnaður sem taki við þessum börnum sem eru að koma með foreldrum í leit að alþjóðlegri vernd. Síðan þegar fjölskyldan er komin með dvalarleyfi á Íslandi, þá fari þau inn í skólana.“
„Kennarar og félagsráðgjafar sem ég hef rætt við að þeir hafa talað um hversu vandmeðfarið og hversu mikill kostnaður fylgir því að taka á móti börnum sem eru í leit að alþjóðlegri vernd og styðja þá auðvitað til að læra íslensku og komast af stað í námi. Þetta er mismunandi eftir því hvort þetta séu stelpur eða strákar, vegna þess að svo eru þau kannski farin eftir 6 mánuði, 12 mánuði, 1 ár 2 ár þegar búið er að vísa fjölskyldunum úr landi, þá er þetta að einhverju leyti sokkinn kostnaður hjá Reykjavíkurborg.“
-sme