- Advertisement -

„Framsæknustu og færustu sérfræðingar veraldar“

Deilt í borgarráði um menntastefnu Reykjavíkur. „Taldi Samfylkingin óþarft að vinna að menntastefnu.“ „Allir sem hafa viljað hafa áhrif á menntastefnuna hafa getað það.“

Tekist er á um menntastefnu í borgarráði. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks bókuðu að í febrúar 2009 hafi borgarstjórn samþykkt einum rómi, og það að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins, að hefja vinnu við mótun menntastefnu í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar.

„Þegar Samfylkingin tók við yfirstjórn menntamála í borginni eftir borgarstjórnarkosningar 2010 var þessari stefnumótunarvinnu hætt án haldbærra skýringa,“ segir í bókuninni.

Fulltrúar meirihlutans bókuðu strax: „Vinna við menntastefnu hefur verið afar umfangsmikil á kjörtímabilinu en meðal þeirra sem komið hafa að henni eru framsæknustu og færustu sérfræðingar veraldar í skólamálum. Þá höfum við leitað til skólastjórnenda, kennara, leiðbeinenda, nemenda og foreldra og almennings, eða með öðrum orðum, allir sem hafa viljað hafa áhrif á menntastefnuna hafa getað það. Á þessum fundi er eingöngu verið að vísa menntastefnunni eins og hún lítur út í dag í umsagnarferli sem er eðlilegt næsta skref í þessari metnaðarfullu vinnu sem mun gera skólastarf í borginni enn faglegra og betra.“

„Á sl. ári hófst vinna við menntastefnu að nýju eftir sjö ára dvala,“ bóka sjálfstæðismenn.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Í vetur hefur þessi stefnumótunarvinna verið harðlega gagnrýnd af skólafólki, m.a. vegna þess að hún sé unnin í miklum flýti því núverandi meirihluti leggi allt kapp á að ljúka henni fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Margt skólafólk telur að rekja megi slæma stöðu skólamála í borginni til stefnuskorts og áhugaleysis núverandi meirihluta á málaflokknum. Skólastjóri Réttarholtsskóla er einn þeirra sem gagnrýnt hefur flaustursleg vinnubrögð meirihlutans við mótun menntastefnu. Bendir hann á að fyrirliggjandi drög séu í raun einungis endurómur úr gildandi aðalnámskrá sem hafi aldrei verið innleidd í reykvíska skóla nema í skötulíki. Allt í stefnudrögunum sé að finna í grunnþáttum og lykilhæfni viðkomandi námskrár. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna því að fulltrúar meirihlutans falli nú frá fyrri áformum að samþykkja umrædda menntastefnu fyrir kosningar og styðja tillögu um að drög að henni verði sett í víðtækt umsagnarferli.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: