- Advertisement -

Framkoman lítilsvirðing við ljósmæður

Ólína Þorvarðardóttir: „Og það er raunalegt ekki síst í ljósi þess að valdamestu aðilarnir í þessu ferli núna — forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra og ríkissáttasemjari — eru allt konur.“

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, fyrrverandi þingmaður, skrifar um stöðuna í ljósmæðradeilunni og segir meðal annars: „Auðvitað getur þetta ekki gengið, og það er ekki ásættanlegt á meðan völdin liggja í höndum kvenna að svona sé komið fram við þessa mikilvægu kvennastétt. Það á ekki að vera í boði.“

Skrif Ólínu fara hér á eftir:

Hefur ríkið eitthvað teygt sig til móts við ljósmæður? Í hverju fólst hin svokallaða „miðlunartillaga“? Hún fólst í samingnum sem þær höfðu áður fellt, og að vísa svo einhverjum útfærsluatriðum og starfsmati til gerðardóms. Hvernig getur það talist miðlunartillaga? Heilbrigðisráðherra er undrandi á því að ljósmæður „hafni ítrekað“ tilboðum ríkisins. En eru þær ekki að fá sama tilboðið aftur og aftur? Hafi þær hafnað því einu sinni hljóta þær að gera það aftur. Þessi framkoma er lítilsvirðing við þær. Ekkert annað. Og það er raunalegt ekki síst í ljósi þess að valdamestu aðilarnir í þessu ferli núna — forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra og ríkissáttasemjari — eru allt konur.

Á sama tíma hefur forstjóri Landspítalans lýst yfir neyðarástandi þar vegna stöðunnar, landlæknir hefur opinberað þungar áhyggjur — eru þá ónefndar áhyggjur og kvíði fæðandi kvenna sem nú eru fluttar hreppaflutningum landshorna á milli (nokkuð sem fæðandi konur af landsbyggðinni hafa margar mátt þola um árabil af öðrum ástæðum en það er önnur saga) og eða sviknar um þjónustu sem hingað til hefur þótt sjálfsögð, eins og fyrstu sónarskoðun og tilheyrandi viðtal við ljósmóður.

Auðvitað getur þetta ekki gengið, og það er ekki ásættanlegt á meðan völdin liggja í höndum kvenna að svona sé komið fram við þessa mikilvægu kvennastétt. Það á ekki að vera í boði.

Nú verða aðrar kvennastéttir að láta til sín heyra! Þetta mál þarf að leysa og ríkið verður að koma sér upp úr hjólförunum í þessari deilu. Annað er til skammar.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: