„Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur lagt fram frumvarp um að einkavæða skuli grásleppuna og setja fiskinn inn í hið illræmda gjafakvótakerfi. Með þessum gjörningi grefur hún undan framtíð smábátaútgerðar og minni sjávarbyggða,“ segir í nýrri grein Sigurjóns Þórarsonar, sem nú situr á Alþingi sem varaþingmaður.
„Þá mun fyrirhuguð einkavæðing grásleppunnar óneitanlega takmarka atvinnufrelsi sjómanna. Atvinnufrelsið nýtur verndar 75. gr. stjórnarskrárinnar. Þessu frelsi má setja skorður, enda krefjist almannahagsmunir þess, en ekki er að sjá að frumvarpið standi vörð um almannahagsmuni að nokkru leyti – öllu heldur ber það merki sérhagsmunagæslu. Slíkt er ekkert annað en stjórnarskrárbrot!
Það er engin spurning að með þessum ómerkilegu og óskiljanlegu vendingum er Svandís á góðri leið með að skrifa sig rækilega inn í komandi þáttaröð Verbúðarinnar. Þessi svarti blettur á pólitískum ferli ráðherrans er kjörinn efniviður til grátbroslegrar samfélagslegrar rýni enda einkennist seta hennar í matvælaráðuneytinu m.a. af hroka, óheiðarleika, köldum og vélrænum þankagangi og ofan á það er kryddað með stjórnarskrárbrotum.
Það er beinlínis kjánalegt hjá flokki sem kallar sig Vinstri hreyfingin – grænt framboð, sem barðist um á hæl og hnakka gegn einkavæðingu Samherjaráðherrans á grásleppunni á síðasta kjörtímabili, að flytja nú frumvarp sama efnis. Það er sér í lagi skringilegt þegar ekki er að finna stafkrók um áformin í nokkru stefnumarkandi skjali flokksins um að hann hyggist grafa undan smábátaútgerð, heldur miklu frekar hið gagnstæða.
Það sem ræður för við einkavæðingaráformin er augljóslega ekki nein fiskverndarsjónarmið enda grásleppustofninn við hestaheilsu. Ekki er heldur að sjá að umhyggja fyrir arðsemi grásleppuveiða sé lögð til grundvallar. Ef svo væri þá hefði verið nærtækast að gefa grásleppubátum kost á að fénýta að fullu meðafla.
Það virðist ráða för að matvælaráðherra hefur kokgleypt sjónarmið þeirra sem vilja fá þessa auðlind þjóðarinnar gefins, þ.e. gamla góða Verbúðarsagan. Ráðherra Vinstri grænna virðist horfa til kaldra kerfislægra lausna – einkavæðingunni skal komið á jafnvel þó vitað sé að það kosti eyðingu byggða.
Umræðan á Alþingi við fyrstu umræðu frumvarpsins var nánast leikræn, en nokkrir þingmenn Vinstri grænna stóðu vörð um ráðherra sinn og einstaka skjaldmey gerði hróp að þeim sem beindu gagnrýni að einkavæðingarráðherranum, reyndar með einni undantekningu. Varaþingmaður Vinstri grænna, vestan af fjörðum, Lilja Rafney Magnúsdóttir, flutti góða ræðu um andstöðu sína við frumvarpið. Hún bað atvinnuréttindum sinnar heimabyggðar griða fyrir græðgisvæðingu ráðherrans.“
Hvað hefur komið fyrir Vinstri græna? – Gera ráðherrar VG allt fyrir frægðina? Myndu þeir jafnvel brjóta stjórnarskrána? “