Of margir trúðu þeim og héldu jafnvel um stund að ekkert samband væri lengur á milli vaxtastigs, gengis og verðlags.
Oddný Harðardóttir.
Oddný Harðardóttir á Alþingi, skömmu fyrir helgi:
„Seðlabankastjóri tilkynnti sumarið 2020 að Ísland væri orðið lágvaxtaland. Hann boðaði nýja tíma og sagði að í fyrsta sinn væri það raunverulegur valkostur fyrir heimilin að skipta yfir í nafnvexti. Þetta eru mikil tímamót og fela í sér að verðtryggingin mun deyja út, tilkynnti seðlabankastjóri. Fólkið sem trúði honum glímir nú við stóraukna greiðslubyrði vegna húsnæðislána og mun fleiri heimili hafa lent í vanda. Fyrir kosningar 2021 talaði hæstvirtur fjármálaráðherra líka um lága vexti og lága verðbólgu á Íslandi, landi tækifæranna.
Orð þessara manna vega þungt, stöðu þeirra vegna. Of margir trúðu þeim og héldu jafnvel um stund að ekkert samband væri lengur á milli vaxtastigs, gengis og verðlags. Staðreyndin er hins vegar sú að við þurfum að vera með hærri vexti hér á landi vegna íslensku krónunnar, vegna gjaldmiðils sem sveiflast upp og niður eftir aðstæðum. Almenningur ber kostnað af krónunni. Á meðan við búum við íslensku krónuna mun það vera svo. Tilraunir til að telja fólki trú um annað eru ámælisverðar.
Þegar stýrivaxtahækkanir voru kynntar í byrjun október sagði seðlabankastjóri: Verðbólga er enn þá há, hún er 9,3%. Við teljum okkur því þurfa að bæta aðeins í aðhaldið. Á sama tíma sjáum við að verðbólga er að ganga niður og við vonum að þetta verði síðasta vaxtahækkun Seðlabankans í þessu ferli. Síðan þá hafa stýrivextir verið hækkaðir oft og verðbólgan ekki gengið niður. En lánin hafa hækkað og heimilin bera kostnaðinn. Ríkisstjórnin verður að mæta heimilunum með mótvægisaðgerðum sem duga þeim sem standa í mestu vandræðunum út af þessu.“