Tiltölulega fáir setja sig upp á móti því að áhugasamir bjóði sig fram til þings.
Gunnar Smári skrifar:
Um miðjan febrúar gerði Landssamband eldri borgara könnun um áhuga fólks á sérstökum lista eldri borgara í næstu þingkosningum. Niðurstaðan er ekki afgerandi, enda erfitt að lesa í svona kannanir um óorðna hluti. En það má samt lesa sitthvað úr þessu. Við skulum reyna það.
Fáir setja sig upp á móti framboðinu
Fyrst var spurt um hvort væri hlynnt eða andvígt svona framboði. Þetta er spurning hvort fólk vill aukið vöruframboð og það er ekki mikil skuldbindingin fólgin í að svara þessu játandi. 44% svaranda voru hlynnt svona framboði, 37% hvorki né en 19% andvíg. Hvað merkir þetta? Tiltölulega fáir setja sig upp á móti því að áhugasamir bjóði sig fram til þings. Það er lítill munur á afstöðu fólks eftir kyni, aldri, búsetu, menntun og tekjum, nema hvað fleiri yngri eru hlutlaus. En það er ekki að sjá að þau sem eru andvíg svona framboði séu einhver sérstakur samfélagshópur, líklega er þetta persónugerð frekar en eitthvað annað.
Ef svo er, þá er líklegra að finna þessa manngerð, sem er á móti því að áhugasamt fólk bjóði sig fram, meðal kjósenda Viðreisnar, Samfylkingar og Miðflokks en meðal kjósenda Flokks fólksins, Sósíalistaflokksins og VG, svo taldir séu upp flokkarnir á sitthvorum endanum.
Helmingur 60 ára og eldri hafa áhuga
Þegar spurt var hvort fólk teldi það líklegt eða ólíkt að það myndi kjósa svona framboð eldri borgara skýrðust línur. 7,2% sögðu það mjög líklegt og 7,9% frekar líklegt, samtals 15,1%. 17,8% til viðbótar sögðu það í meðaltali líklegt, svona mitt á milli eða hvorki né. Ef við bætum þessu við þá má segja að um 1/3 svarenda hafi ekki hafnað þessu framboði, væri til að hlusta og velta því fyrir sér að kjósa.
46,4% svarenda sögðu það mjög ólíklegt að þeir myndu kjósa framboð eldri borgara og 20,8% sögðu það fremur ólíklegt. 2/3 hlutar hafa því engan eða takmarkaðan áhuga.
Skiljanlega segjast flest í aldurshópnum 60 ára og eldri telja líklegt að þau myndu kjósa svona framboð, eða samtals 41,4% á móti 40,3% sem segja ólíklegt að þau myndu kjósa listann. Rétt rúmlega helmingur af þeim sem tóku afstöðu myndu íhuga að kjósa framboð eldri borgara. Það er þó nokkuð.
Hollenski eftirlaunaflokkurinn tapar í kosningum
Framboðslistar eftirlaunafólks er til í mörgum löndum. Einna mestum árangri hafa þeir náð í Hollandi, en 50plús listinn tapaði þremur af fjórum þingmönnum sínum í nýliðnum kosningum, féll úr 3,1% í 1,0%. Holland er allt eitt kjördæmi, svo 0,67% fylgi dugar fyrir þingmanni.
Danski eftirlaunaflokkurinn er hættur en sá norski hefur verið til frá 1985, fékk síðast 0,4% atkvæða og engan mann kjörinn á þing. Þótt hagsmunir eftirlaunafólks séu víðast svipaðir veldur kosningakerfið því hvort þeir ná árangri; meiri þar sem fleiri þingmenn eru í kjördæmum og þröskuldar lægri. Á Íslandi er líkt kosningakerfi og á Norðurlöndunum en með hærri þröskuldum.
Ef við förum lengra út í heim má finna flokk eftirlaunafólks á þingi í Slóveníu, flokk sem fékk 4,9% í síðustu þingkosningum og 5 þingmenn af 90. Þessi flokkur, Lýðræðislegi eftirlaunaflokkurinn, sem stofnaður var 1991, á auk þess sveitarstjórnarfólk víða, borgarstjóra og Evrópuþingmenn. Flokkurinn hefur verið í stjórn alla þessa öld og formaðurinn var utanríkisráðherra um tíma.
Í Serbíu er annar eftirlaunaflokkur, Flokkur sameinaðs eftirlaunafólks, sem náð hefur árangri, er með 9 þingmenn af 250 og hluti kosningabandalags sem nú fer með völd í landinu.
Af öðrum löndum þar sem flokkar eftirlaunafólks hafa sett svip sinn á stjórnmálin, en ekki endilega náð jafn góðum árangri og í Hollandi, Serbíu og Slóveníu má nefna Nýja Sjáland og Rússland. Í Lúxemborg er flokkur sem var stofnaður í kringum kröfu um jöfnun eftirlauna fólks á almennum vinnumarkaði og opinberra starfsmanna, en hefur þróast í almennari stjórnmálaflokk. Sá hefur 4 þingmenn af 60 á þinginu í Lúxemborg.
Hvað er hægt að lesa úr þessu? Það hefur verið sýnt að það er hægt að ná árangri með flokki eftirlaunafólks, ekki síst þar sem þessi hefur þurft að þola mikinn órétt og fall í tekjum eins og í Austur-Evrópu. En það hjálpar að hafa sterka frambjóðendur og kosningakerfi sem er hliðhollt smærri flokkum, sem það íslenska er ekki.
Er að marka afstöðu fólks til óþekktra framboða?
Í könnun Félags eldri borgara er spurt hvort fólk telji líklegt eða ólíkt hvort það myndi kjósa framboð eldri borgara. Þetta er aðeins öðruvísi spurning en þegar spurt er hvort til greina kæmi að fólk kysi nýtt framboð, en sú spurning hefur nokkru sinni verið notuð. Hér eru dæmi um það.
Í október 2011 var spurt hvort fólki þætti koma til greina að kjósa nýtt framboð Guðmundar Steingrímssonar. 33,5% sögðu að það kæmi til greina. Í janúar árið eftir var aftur spurt: Kæmi til greina að fólk kysi Bjarta framtíð, en þá var nafn komi á framboð Guðmundar. Þá sögðu 23,9% að það kæmi til greina. Þegar svo kosið var ári síðar fékk Björt framtíð 8,2% atkvæða. 1/3 sem sagði að það kæmi til greina að kjósa Bjarta framtíð gerði það á endanum, 2/3 ekki.
Í janúar 2012 spurði Guðmundur Franklín líka hvort að fólk vildi kjósa framboð sem hann vildi búa til. 5,6% sögðu að það kæmi til greina. Ári síðar kusu 1,7% kjósenda Hægri græna. 1/3 þeirra sem sögðu að það kæmi til greina skilaði sér, en 2/3 hlutar ekki.
Í apríl 2014 var fólk spurt hvort til greina kæmi að kjósa framboð Þorsteins Pálssonar og félaga. 38,1% sögðu það koma til greina. Tveimur árum seinna fékk Viðreisn 10,5% atkvæða. Þorsteinn var þar í heiðurssæti en ekki í framvarðarsveit. Samt er ljóst að um sömu stjórnmálahreyfingu er að ræða. Rúmlega 1/4 skilaði sér, tæplega 3/4 ekki.
Barátta við 5% þröskuldinn
Ég ætla ekki að reyna að búa til kenningu úr þessu, til þess er of mislangt frá könnun að kosningum. Og svo er vandi að spurning Félags eldri borgara er öðruvísi orðuð.
Af nýrri könnunum má nefna þá sem Ragnar Þór Ingólfsson lét gera um hvort fólki þætti koma til greina að kjósa nýtt stjórnmálaafl verkalýðshreyfingarinnar. Þá sögðu 23% að það kæmi til greina. Miðað við hlutföllin hér að ofan ætti Ragnar Þór möguleika á um 6,2-7,7% atkvæða.
Til að finna samburðarhæfa tölu úr könnun Félags eldri borgara þá skulum við taka þau sem sögðu það líklegt að þau myndu kjósa lista eldri borgara sem hlutfall af þeim sem tóku skýra afstöðu, þ.e. sleppum hinum óákveðnu; þá er sambærilegt hlutfall 18,3%. Miðað við hlutföllin hjá Bjartri framtíð, Hægri grænum og Viðreisn þá mætti segja að þetta gæfi vísbendingu um 4,9-6,1% fylgi.
Þetta er vísbending, ekki spá. Hugmynd er eitt og framkvæmd annað. Björt framtíð og Viðreisn voru mjög vel lukkuð framboð, eru meðal þeirra nýrra framboða sem hafa náð bestum árangri í Íslandssögunni. Sagan er full af framboðum sem höfðu kannski meira erindi og betri málstað en náðu minni árangri. Pólitík er ekki bara hugsjón og stefna heldur barátta, stundum sögð stríð án vopna.
En vísbendingin segir að listi eldri borgara væri að berjast við 5% þröskuldinn, en hefði möguleika á að komast yfir hann og ná inn þremur þingmönnum, fjórum á góðum degi.
Meira fylgi úti á landi
En hvaðan kemur fylgi við þetta framboð? Til einföldunar þá set ég hér fram hlutfall þeirra sem tóku skýra afstöðu, sleppi fólkinu sem yppti öxlum. Eins og áður sagði segjast rúmur helmingur 60 ára og eldri mjög eða frekar líklegt að þau myndi kjósa svona lista, eða 50,7%. Áhuginn dofnar eftir því sem fólk er yngra; 18,4% á sextugsaldri, 13,1% á fimmtugsaldri og um 6% hjá yngra fólki.
Enginn munur er á kynjunum. En áhuginn er minnstur í Reykjavík (14,1%), í Kraganum (16,4%) og á Austurlandi (17,0%). Fólk á Reykjanesi og Suðurlandi er áhugasamast (27,5%), á Norðurlandi (24,0%) og á Vesturlandi og Vestfjörðum (27,5%). Þetta hjálpar framboðinu ekki, þvi flokkar þurfa hlutfallslega meira fylgi til að ná inn kjördæmakjörnu fólki í landsbyggðarkjördæmunum.
Skipting eftir menntun og tekjum kemur ekki á óvart. Það er meira fylgi meðal hinna tekjulægri, vegna þess að eldra fólk er tekjulægra en fólk almennt (og það er hluti af erindi framboðsins). Og það eru fleiri fylgjandi meðal þeirra sem eru með minni menntun, en hlutfall menntunar er lægri meðal hinna eldri en hinna yngri. Það sama má segja um fjölskyldugerð og hjúskaparstöðu; afstaðan endurspeglar almenna stöðu eldra fólks. Fylgið er mest á barnlausum heimilum og meðal ekkna og ekkla.
Tæki mest frá Flokki fólksins
Það sem fólki finnst kannski mest spennandi er frá hvaða stjórnmálaflokkum fylgið kemur. Frá hverjum myndi svona framboð taka atvkæðin?
Það er rétt að taka það fram strax að framboð eldri borgara gæti orðið Flokki fólksins skeinuhætt. 70% af þeim sem sögðust ætla að kjósa Flokk fólksins sögðu líklegt að þau myndu kjósa lista eldri borgara. Næsti flokkur þar á eftir er Miðflokkurinn, en 39% stuðningsfólks hans sögðu líklegt að þau myndu kjósa lista eldri borgara. Næst komu Sósíalistar (35,6%), Framsókn (24,3%), VG (17,9%), Samfylkingin (12,1%), Viðreisn (10,0%), Sjálfstæðisflokkur (6,6%) og Píratar (5,4%).
Þar sem flokkarnir eru misstórir gefur þetta ekki góða mynd af samsetningu hópsins, sem sagði líklegt að hann myndi kjósa lista eldri borgara. 21% hópsins kæmi frá Miðflokki, 18% frá Framsókn, 15% frá Samfylkingu, 14% frá VG, 11% frá Flokki fólksins, 11% frá Sósíalistaflokknum, 4% frá Sjálfstæðisflokki, 4% frá Pírötum og 2% frá Viðreisn.
Þetta sýnir mögulegir kjósendur koma frekar frá flokkum með landsbyggðarhalla (Miðflokki og Framsókn) og frá flokkum með félagshyggjutaug (Samfylkingu, VG, Flokki fólksins og Sósíalistum) en síst frá flokkum með nýfrjálshyggjutaug (Sjálfstæðisflokki, Pírötum og Viðreisn).
Íhaldið vill sundra andstöðunni
Þetta mun setja Landssamband eldri borgara í vanda því forysta félaga eldri borgara hafa verið frekar hægra megin, nú síðast vann góð og gegn Sjálfstæðisflokkskona formannskosningu í Reykjavíkurdeild félagsins. Miðað við samsetningu hópsins ætti félagið frekar að stilla fram fólki með félagshyggjurætur en járnhnefa íhaldsstefnunnar.
Hér verður að skjóta inn smá sögu. Menn sem tengjast Sjálfstæðisflokknum hafa lengi haft áhuga á svona framboðum sem byggja á réttlætiskröfum en sem ekki er samt ekki hægt að flokka sem neinn sósíalisma. Þeir komu t.d. að framboði Flokks heimilanna 2013 og studdu framboð Flokks fólksins bæði 2016 og 2017. Einn af þessum mönnum er sr. Halldór Gunnarsson í Holti, en hann er nú einn þeirra sem harðast talar fyrir framboði eldri borgara.
Það þarf ekki klókan huga til að sjá hvaða hag Sjálfstæðisflokkurinn hefur af svona framboðum. Þau taka fylgi frá flokkum sem berjast fyrir breytingum á samfélaginu en síður frá íhaldinu sjálfu. Það skýrir áhuga Halldórs og fleiri Sjálfstæðisflokksmanna á þessum framboðum.
Tæki menn frá Íhaldi, VG og Miðflokki
En nú skulum við leika okkur. Ef við tökum miðgildi vísbendingarinnar hér að ofan og segjum að með góðri kosningabaráttu myndi Framboð eldri borgara fá 5,5% atkvæða. Og ef við notum könnunin til að meta frá hvaða flokkum fylgið kæmi og bærum það svo saman við nýjustu könnun Maskínu; þá verður úr þessu vísbending um áhrif Framboðs eldri borgara á stjórnmálin.
Hér er endurmetið fylgi flokkanna (innan sviga frávik frá nýjustu könnun Maskínu):
- Sjálfstæðisflokkur: 21,2% (–0,6%)
- Samfylkingin: 13,1% (–0,6%)
- VG: 12,4% (–0,8%)
- Píratar: 11,8% (–0,3%)
- Viðreisn: 11,7% (–0,4%)
- Framsókn: 10,0% (–0,9%)
- Eldri borgarar: 5,5% (+5,5%)
- Miðflokkurinn: 5,3% (–0,8%)
- Sósíalistaflokkur: 5,2% (–0,5%)
- Flokkur fólksins: 3,7% (–0,7%)
Og ef við skiptum þessu fylgi niður á þingheim, þá er skipting þessi (innan sviga er breyting frá nýjustu könnun Maskínu):
- Sjálfstæðisflokkur: 14 þingmenn (–1)
- Samfylkingin: 9 þingmenn
- VG: 8 þingmenn (–1)
- Píratar: 8 þingmenn
- Viðreisn: 8 þingmenn
- Framsókn: 7 þingmenn
- Eldri borgarar: 3 þingmenn (+3)
- Miðflokkurinn: 3 þingmenn (–1)
- Sósíalistaflokkur: 3 þingmenn
Flokkur fólksins: Enginn þingmaður
Framboð eldri borgara tæki samkvæmt þessu, sem er auðvitað bara leikur, þingmenn af Sjálfstæðisflokki, VG og Miðflokki. Gerði erfiðara fyrir Flokk fólksins til að ná inn á þing, en hefði að öðru leyti lítil áhrif. Fyrir utan þau sem líklega er ætlunin; að rödd eftirlaunafólks heyrist inn á þingi.
En til þess þarf Landssambandið að setja saman góða stefnu og lista og heyja velheppnaða kosningabaráttu. Og stefnan, listinn og baráttan mun ekki bara hafa áhrif á framboð eldri borgara heldur líka á hina flokkanna og kosningabaráttuna alla. Þessi leikur hér, byggður á könnun um mögulegt framboð, er því ekkert líklegri niðurstaða en hver önnur.
En samt; það er eins og svona framboð hafi möguleika. Ef það er frábærlega framkvæmt.