- Advertisement -

Frambjóðandinn snýst gegn eigin flokki

Sigurjón Magnús skrifar:

Við nánast heyrum þegar Bjarni les þetta og kaffið frussast yfir Moggann hans.

Enginn einn flokkur hefur náð að móta samfélagð betur en Sjálfstæðisflokkurinn. Samt gengur hann enn og aftur og segist vilja báknið burt. Það er sitt eigið sköpunarverk. Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hafa fengið liðstyrk úr óvæntri átt. Njáll Trausti Friðbertsson, núverandi oddviti flokksins í norðaustri hikar ekkert. Trúlega er Bjarni búinn að hringja í „villinginn“ Njál Trausta. Í hinum hnignandi og ríkisstyrka Mogga, skrifar Njáll Trausti.

„Byggðastefna snýst ekki um ölm­usu, held­ur um sann­girni, jafn­ræði og sömu tæki­færi. Íbúar dreifðari byggða skyldu njóta sömu tæki­færa, sömu grunn­gerðar og sama stoðkerf­is og þeir sem búa í marg­menni höfuðborg­ar­inn­ar,“ skrifar oddvitinn. Einhver mun eflaust hafa sagt að þetta sé að að fara út af í fyrstu beygju. Hörð gagnrýni á allt starf flokksins við að byggja upp og móta báknið. Að sínum hagsmunum.

Svo kemur gullkorn allra gullkorna í kosningabaráttunni: „Við sjálf­stæðis­menn vilj­um verj­ast æ meiri rík­is­um­svif­um, miðstýr­ingu og sí­felldri fjölg­un op­in­berra starfs­manna.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þetta er svo dásamlegt. Hverju telur Njáll Trausti að flokkurinn vilji verjast, hver er andstæðingurinn? Jú, mikið rétt, flokkurinn sjálfur.

Áfram heldur oddvitinn: „Báknið dreg­ur fjár­magn suður og þrótt úr lands­byggðinni. Þar vilja stjórn­lynd­ir leyfa at­vinnu­líf­inu fátt, banna margt og skipu­lags­binda sem flest – allt skyldi vera háð leyfi ein­hverra hæg­gengra stofn­ana syðra. Það að setja vexti rík­is­valds­ins skorður og leyfa at­vinnu­fyr­ir­tækj­un­um að njóta ávaxta erfiðis síns í heima­byggð er mik­il­vægt byggðamál.“

Við nánast heyrum þegar Bjarni les þetta og kaffið frussast yfir Moggann hans.

Að skjóta sig, og eigin flokk um leið í fótinn, verður ekki betur gert. Með Njál Trausta innanborðs þarf Sjálfstæðisflokkurinn ekki andstæðinga. Kannski heldur Njáll Trausti að kjósendur séu algjör fífl.

e.s. höfundur er á löngum biðlista hjá verkjateymi Landspítalans og hefur verið mjög lengi.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: