Gunnar Smári skrifar:
Á þetta hafa sósíalistar bent í nokkur ár; til að leysa húsnæðiskreppu láglaunafólks, öryrkja, eftirlaunafólk og ungra barnafjölskyldna í basli ber að byggja yfir þetta fólk. Það er fráleitt að láta gróðapungum og bröskurum eftir að móta húsnæðisstefnuna, reyna að beina henni þangað sem mestur gróðinn er; ekki bara vegna þess að það er siðferðislega rangt heldur vegna þess að það er víðáttuvitlaust. Braskarar hafa rangt fyrir sér og það hefur komið í ljós á 7-10 ára fresti alla tíð kapítalismans þegar kreppur skella á og kostnaðurinn af heimsku braskaranna leggst á almenning allan. Þrátt fyrir afleita niðurstöðu húsnæðisstefnunnar heldur meirihlutinn í Reykjavík áfram að semja við lóðabraskara, verktaka og leigufyrirtæki um áframhaldandi stjórn húsnæðisuppbyggingarinnar í Reykjavík, sömu aðila og eru meginástæðan fyrir húsnæðiskreppunni.
Neðst í fréttinni kvartar svo bankamaður undan að þurfa að borga skatta, segir að 10 milljarðar króna bankaskattur valdi því að bankarnir geti ekki lækkað vexti. Í fyrra voru stóru bankarnir þrír reknir með 37,7 milljarða króna hagnaði þrátt fyrir bankaskattinn. Hvað eru bankarnir að biðja um? Að draga meira en 1,3% af landsframleiðslu til sín sem hreinan hagnað? Eru bankamenn virkilega að fara fram á meira?