Skjáskot: Silfrið.

Fréttir

„Frábær kjör á húsnæðislánum í dag“

By Miðjan

April 02, 2022

„Skuldir heimilanna eru nú meira en þriðjungi lægri, í hlutfalli við ráðstöfunartekjur, en fyrir áratug síðan. Í hlutfalli við landsframleiðslu eru skuldir heimilanna hvergi lægri á Norðurlöndum en hér og í þrjátíu ár hafa raunvextir á húsnæðislánum ekki verið lægri. Það eru í raun og veru frábær kjör á húsnæðislánum í dag, þau bestu í áratugi. Það skiptir máli,“ sagði fjármálaráðherrann Bjarni Benediktsson á Alþingi.

„Samandregið höfum við kosið að vinna gegn sveiflum í efnahagslífinu með heilbrigðri heildarumgjörð, frekar en að ráðast í sértækar aðgerðir í hvert sinn sem verðbólga fer tímabundið yfir markmið Seðlabankans. Þannig hafa heimili og fyrirtæki svigrúm til að bregðast tímanlega og skynsamlega við breytingum í hagkerfinu á eigin forsendum, líkt og í kjölfar heimsfaraldursins. Ráðuneytið fylgist auðvitað með áhrifum vaxtabreytinga á greiðslubyrði fólks í viðkvæmri stöðu og ungs fólks að því marki sem gögn leyfa. Þá er einnig fylgst með þróun skuldsetningar og greiðslubyrði heimila á vettvangi fjármálastöðugleikanefndar. Við erum að styðjast við gögn Seðlabankans um ný lán sem innihalda upplýsingar um skuldsetningu, greiðslubyrðarhlutföll og tegundir lána frá einum mánuði til annars og þetta eru gögn sem fyrst og fremst ná til nýrra lána,“ sagði Bjarni en hér hægt að lesa ræðuna alla. 

-sme