Efnahagsmál Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri flutti í gær erindi á málþingi Félags löggiltra endurskoðenda um losun fjármagnshafta og leiðina að varanlegum stöðugleika. Í erindinu rakti Arnór m.a. þau atriði sem kölluðu á fjármagnshöftin á sínum tíma og hann fjallaði einnig um ýmsar umbætur sem komið hefur verið á.
Arnór talaði meðal annars um aðdraganda efnahagshrunsins, en á þeim tíma var hann aðalhagfræðingur Seðlabankans.
Sljóvguð dómgreind
„Undanfari þess að traust þverr er hins vegar iðulega tímabil oftrúar sem reynist byggð á sandi, eins og gerðist í aðdraganda bankahrunsins árið 2008. Efnahagsleg velgengni til margra ára og langvarandi stöðugleiki hafði sljóvgað dómgreind margra fjárfesta sem vanmátu hættuna af því fjármálalega ójafnvægi sem smám saman var að byggjast upp og dældu því fé í áhættusamar fjárfestingar víða um heim. Hluti þessa fjármagns leitaði til Íslands, þar sem stórir atburðir, ytri skilyrði og innlend hagstjórn ýttu undir væntingar sem reyndust óraunhæfar. Augljós viðvörunarmerki, í formi gríðarlegs útlánavaxtar, eignaverðsbólu, ósjálfbærs viðskiptahalla og þrálátrar spennu í þjóðarbúskapnum, fengu lengi vel ekki hnikað trú margra á íslenska efnahagsundrið, sem nokkrir ævintýrabankar kyntu undir. Hik kom á suma lánveitendur haustið 2005, fleiri í mars 2006 og eftir að nokkrir erlendir bankar höfðu tapað trausti og þar með lífinu árið 2008 hafði oftrúin snúist í algert vantraust.“
Fjármagn á flótta
„Góðærið var að miklu leyti fjármagnað með erlendu lánsfé til skamms tíma. Bankarnir miðluðu því til heimila og fyrirtækja, og með óbeinum hætti til hins opinbera, sem andlag áhættuvarna erlendra útgefanda skuldabréfa í íslenskum krónum. Skuldabréfin höfðu þeir selt fjárfestum í leit að betri ávöxtun en þeirri sem í boði var á skuldabréfamörkuðum lágvaxtalanda. Við fall bankanna hrundi því ekki einungis traust á bankana heldur einnig á ríkissjóð, efnahagslífið í heild sinni og þar með gjaldmiðil landsins. Því brast flótti á allt fjármagn hvort heldur um var að ræða kröfur á hina föllnu banka, ríkissjóð eða aðra aðila, sem ekki varð stöðvaður í bráð nema með fjármagnshöftum. Erlendir lánsfjármarkaðir lokuðust nær algerlega á sama tíma.“
Erindi Arnórs má lesa hér.