Sigurjón Magnús Egilsson skrifar:
Oftsinnis var ég rekinn út úr tíma þegar ég var í Melaskóa. Magnea Hjálmarsdóttir kennari og ég vorum ekki alltaf sátt. Eitt sinnið þegar ég stóð fram á gangi og Magnea hafði skellt hurðinni að baki mér vissi ég ekki hvað ég ætti að gera. Sem var svo sem ekkert nýtt. Vissi að sjaldan. Í kennslutíma, frímínútum og bara nánast hvar sem er.
Jæja, ég gekk niður stigann og fór niður í kringlu. Myndin er einmitt þaðan. Án þess að hafa hugsað það mikið tók ég til að rugla úlpunum þannig að þegar kennslu var lokið urðu mikil vandræði við leit að réttu úlpunum. Mikið vesen.
Ingi Kristinsson skólastjóri grunaði mig strax. Hann var reiður og strangur þegar hann yfirheyrði mig. Ég játaði „glæpinn“ enda ánægður með hvernig til tókst.
Ég vissi ekki hvað beið mín. Nokkrum dögum síðar var bankað heima. Þangað var kominn maður frá barnaverndarnefnd og sá tilkynnti mömmu að ákveðið hefði verið vegna ábendinga skólastjórans að senda mig til Breiðavíkur.
Mamma brást við. Harðneitaði að afhenta mig, 12 ára strákinn. Ástæða þess að átti að senda mig vestur var úlpuruglingurinn. Mamma gerði samning. Hún náði að frelsa mig frá vesturförinni.
Löngu, löngu seinna var ég ritstjóri á DV og hóf þar skrifin um Breiðavíkurdrengina. Síðar bættum við við skrifum um Kumbaravog, Silungapoll, Bjarg og fleiri „heimili“.
Í framhaldi af skrifum okkar urðu til sanngirnisbætur. Merkilegasta mál sem ég vann að sem blaðamaður og ritstjóri.
Myndin af kringlunni í Melaskóla fékk mig til að hugsa til baka.
Saga mín og Melaskólans er lengri. Ætla að segja meira síðar.