- Advertisement -

Föst í manngerðri fátæktargildru

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Flokks fólksins, nefndi á Alþingi í dag stöðu öryrkja, sem hann sagði fasta í manngerðri fátæktargildru.

Ólafur Ísleifsson. „Hvar eru aðgerðir til að bæta hæg tekjulágra barnafjölskyldna?“

Ólafur byrjaði á að ræða stöðu samninga á vinnumarkaði.

„Í kjölfar hinna mikilvægu samninga á vinnumarkaði, kjarasamninga sem nú fara í hönd, bárust í gær fréttir af útspili ríkisstjórnarinnar eins og það heitir og er þar lögð helst áhersla á hækkun atvinnuleysisbóta og hækkun greiðslna úr Ábyrgðasjóði launa. Ég geri ekki á nokkurn hátt lítið úr þessum mikilvægu málum, herra forseti, en maður spyr sig: Hvar er hækkun bóta öryrkja og þeirra sem lifa á bótum einum saman? Hvar eru aðgerðir til að leysa öryrkja úr manngerðri fátæktargildru sem umlykur þá og birtist í því að maður í þeirri aðstöðu má sig hvergi hræra öðruvísi en að þola fjárhagslegar refsingar? Hvar eru aðgerðir til að bæta hæg tekjulágra barnafjölskyldna með því að hækka persónuafslátt lægstu tekjuhópa og tengja persónufrádráttinn launavísitölu frekar en vísitölu neysluverðs eins og nú er?“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hann hélt áfram og sagði þá: „Það er að vísu vikið að einhverjum þessara þátta með heldur dauflegum hætti. Það er talað um að eiga samtal, eins og það heitir, en í framhaldi af því má spyrja: Hvar eru aðgerðir til að styrkja bótakerfin sem helst hafa stutt þá sem lakast standa, vaxtabótakerfið, barnabótakerfið, húsaleigubótakerfið o.s.frv.? Í ljósi þess hversu mikilvægir þessir kjarasamningar eru og hversu brýn þörfin er á úrbótum í þessu efni leyfi ég mér að segja að ég hefði vonast eftir metnaðarfyllra útspili af hálfu ríkisstjórnarinnar.“

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: